Innlent

Fjölmargir viðstaddir útför Söndru Bland

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá útför Söndru Bland í Bandaríkjunum í dag.
Frá útför Söndru Bland í Bandaríkjunum í dag. Vísir/EPA
Hundruð voru viðstaddir útför Söndru Bland í Illinois í Bandaríkjunum í dag. Bland lést í fangelsi í Texas fyrir tæpum tveimur vikum. Hún hafði verið stöðvuð af lögreglumanni fyrir að gefa ekki stefnuljós áður en hún skipti um akrein. Leiddi það til ágreinings á milli hennar og lögreglumanns sem handtók hana í kjölfarið.

Saksóknari Waller-sýslu í Texas gaf það út í gær að rannsókn dánardómstjóra hefði leitt í ljós að Bland hefði hengt sig í fangaklefa. Sagði hann áverka á vinstri hendi hennar gefa til kynna að hún hefði reynt sjálfsvíg nokkrum vikum áður en hún lést í fangaklefanum.

Fjölskylda hennar hefur hafnað þessum niðurstöðum og farið fram á sjálfstæða rannsókn. Bandaríska alríkislögreglan hefur hafið rannsókn á málinu að því er fram kemur á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC.

Þeir sem sóttu útför hennar í bænum Lisle í dag þurftu að bíða í röð fyrir utan kirkjuna í um klukkutíma áður en þeir fengu að ganga fram hjá kistu Bland og votta henni virðingu.

Bland var handtekin 10. júlí síðastliðinn og lést þremur dögum síðar. Sjá má myndband af handtökunni hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×