Innlent

Segir lausnina að tryggja ungu fólki ódýrar lóðir

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir stefnu meirihlutans í borginni varðandi húsnæðisvanda ungs fólks vera komna í óefni. Lausnin sé að tryggja framboð á ódýrari lóðum.

Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff, sagði í fréttum Stöðvar 2 á föstudag að mikil hætta væri á því að þjóðin missti ungu kynslóðina úr landi á meðan leigumarkaðurinn væri eins og villta vestrið og húsnæðisverð í engu samhengi við laun. Algjör viðskilnaður hefði átt sér stað á tveimur áratugum milli fasteignaverðs og launa.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, tekur undir þessar áhyggjur. Lausnin sé hins vegar ekki sú að búa til nýtt félagslegt húsnæðiskerfi og gera sem flest ungt fólk að leiguliðum.

„Heldur er lausnin miklu frekar sú að taka upp aftur þá stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn fylgdi á sínum tíma við lóðaúthlutanir í borginni og tryggja framboð á ódýrum lóðum. Ef þú tryggir framboð á ódýrum lóðum þá munu verktakar og einstaklingar laga sig að því; geta fengið ódýrar lóðir og byggt þá ódýr húsnæði,“ segir Kjartan.

Þessi lausn myndi ekki fela í sér tekjutap fyrir borgina.

„Ég held að ef að borgin hefði síðustu tíu-fimmtán árin markvisst boðið ódýrar lóðir þá hefði borgin jafnvel fengið meiri tekjur en hún hefur haft af sölu lóða vegna þess að þá hefði hún haft mun fleiri og sterkari útsvarsbeiðendur en hún hefur núna.“

Hann segir Dag B. Eggertsson borgarstjóra vera einn af höfundum þeirrar stefnu í húsnæðismálum að selja lóðir háu verði. Nú þegar allt sé komið í óefni vilji meirihlutinn hins vegar ekki viðurkenna mistökin og því sé ekki hlustað á gagnrýnisraddir minnihlutans.

„En því miður þá hefur meirihlutinn skellt skollaeyrum við ábendingum okkar að þessu leiti og unga fólkið líður fyrir það,“ segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.