Innlent

Forsetinn snæddi kvöldverð með Ted Turner

Birgir Olgeirsson skrifar
Ted Turner.
Ted Turner. Vísir/Getty
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, snæddi kvöldverð á Akureyri með Ted Turner, stofnanda bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN. Þetta kemur fram á vef forseta Íslands en þar segir að Ólafur hafi flutt fyrirlestur um borð í National Geographic Explorer í Akureyrarhöfn en skipið er á hringferð um landið.

Frumkvæðið að fyrirlestrinum átti umhverfisstofnun Tedu Turner en hann er ásamt fjölskyldu sinni og fjölda umhverfissinna frá Bandaríkjunum á meðal farþega í þessari ferð skipsins í kringum landið. Skipið er sérhæft til ferða til einstakra svæða í náttúru jarðarinnar og er rekið í sameiningu af National Geographic tímaritinu og Lindblad Expeditions sem sérhæfir sig í sérstökum umhverfisferðum.

Ólafur Ragnar og Dorrit á Suðurskautslandinu.Vísir/forseti.is
Forsetinn er sagður hafa fjallað fyrst og fremst um þróun endurnýjanlegrar orku á Íslandi og skipulag fiskveiða, nýtingu auðlinda hafsins og þróun vísinda og tækni í tengslum við sjávarútveg. Fyrir þremur árum var forseti þátttakandi í ferð skipsins til Suðurskautslandsins en sú ferð var á sínum tíma skipulögð af Nóbelsverðlaunahafanum Al Gore, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna.

Í fyrirspurnartíma og ávarpi fjallaði forsetinn einkum um hvernig vaxandi samstarf á Norðurslóðum og á Himalajasvæðinu getur nýst í baráttu gegn loftlagsbreytingum. 


Tengdar fréttir

Ólafur og Dorrit skoða mörgæsir

Ólafur Ragnar Grímsson forseti og Dorrit Moussaief eru nú stödd á Suðurskautslandinu ásamt fríðu föruneyti. Á vef forsetaembættisins hefur þessi mynd nú verið birt sem sýnir Ólaf og Dorrit ásamt fjölda mörgæsa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×