Innlent

„Sá sem framkvæmir fleiri aðgerðir fær hærri greiðslur“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Kristján Skúli Ásgeirsson brjóstaskurðlæknir.
Kristján Skúli Ásgeirsson brjóstaskurðlæknir.
Kristján Skúli Ásgeirsson, brjóstaskurðlæknir og einn eiganda fyrirhugaðrar brjóstamiðstöðvar í Ármúla, segir rangt að miðstöðin muni leiða til aukinna útgjalda fyrir ríkið. Brjóstamiðstöðin semji við Sjúkratryggingar þannig að hverjum sérfræðingi verði greitt fyrir hvert læknisverk.

Laun lækna muni því fara eftir framleiðni auk þess sem þeir muni taka þátt í ýmsum kostnaði við stofnunina.

„Fyrir skurðlækna má með nokkurri einföldun segja að sá sem framkvæmir fleiri aðgerðir fær hærri greiðslur frá Sjúkratryggingum. Slíkt kerfi hvetur til hagkvæmni, þ.e það er reynt að vinna verkin með sem minnstum kostnaði og auka framleiðnina (gera fleiri aðgerðir), sem er ólíkt því sem gerist á ríkisstofnun eins og Landspítala,“ skrifaði Kristján í grein í Fréttablaðið á dögunum.

Læknar greiði leigu

Stundin sagði frá því að Kristján hefði hug á að opna umrædda brjóstamiðstöð í Klíníkinni, að hluta í eigu Ásdísar Höllu Bragadóttur, staðsetta í Ármúla. Fyrirtækið hafi reynt að ná til sín aðgerðum á krabbameinssjúkum konum af Landspítalanum og stofna sérhæfða brjóstamiðstöð. Þá hafi lífeyrissjóðirnir ætlað að leggja fyrirtæki Kristjáns 210 milljónir til tækjakaupa.

Kristján segir í pistli sínum að hver og einn læknir beri ábyrgð á hluta kostnaðar, þ.e leigu af húsnæði, tækjum og fleiru. Launin verði því ekki föst eins og gerist á Landspítala, „þar sem það skiptir engu máli hvað þú framleiðir mikið eða lítið, launin verða alltaf þau sömu“.

Auk þess sem Kristján segir frá hlutverki sérhæfðrar brjóstamiðstöðvar þylur hann upp ýmsar rangfærslur sem hann segir að settar hafi verið fram að undanförnu. Segir hann til að mynda rangt að eining sem þessi, utan Landspítala, muni leiða til aukins kostnaðar sjúklinga. Nefnir hann þar sem dæmi konu sem greiddi 505 þúsund krónur úr eigin vasa vegna greiningar og meðferða.

„Ég fullyrði að Brjóstamiðstöðin, sem fyrirhugað er að verði starfrækt í Klíníkinni Ármúla, muni ekki leiða til kostnaðarauka fyrir brjóstakrabbameinssjúklinga. Með meiri samfellu í greiningu, skurðmeðferð og endurhæfingu, eins og stefnt er að í Brjóstamiðstöðinni, er líklegt að kostnaðurinn lækki,“ skrifar Kristján en pistil hans í heild má lesa hér.



Uppfært:

Kristján Skúli vill koma því á framfæri að Ásdís Halla Bragadóttir kemur ekki að uppbyggingu eða rekstri Brjóstamiðstöðvarinnar. Brjóstamiðstöðin eigi hlut í Klíníkinni, sem sé rekstrareining utan um lækningamiðstöðina.



 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×