Innlent

Aðeins 412 af 729 matjurtagörðum borgarinnar í útleigu

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Þessar ungu stúlkur ræktuðu kál í Skólagörðunum í Kópavogi árið 2012.
Þessar ungu stúlkur ræktuðu kál í Skólagörðunum í Kópavogi árið 2012. Vísir/GVA
Eftirspurn eftir matjurtagörðum Reykjavíkurborgar er minni í ár en í fyrra þegar litið er heilt yfir alla garða borgarinnar. Þetta kemur fram í svari borgarinnar til Vísis.

Borgin rekur 729 matjurtagarða en einungis 412 þeirra voru leigðir út í ár. Framboð er umfram eftirspurn í öllum garðanna að frátöldum matjurtagarði við Þorragötu. Þar var öllum görðum úthlutað.

Garðarnir standa í Vesturbæ við Þorragötu, Fossvogi í endanum á Bjarmalandi, í Breiðholti við Jaðarsel, í Árbæ við Rafstöðvarveg, í Grafarvogi við Logafold og í Laugardal við enda Holtarvegar. Þá leigir borgin út 220 garða í Skammadal sem áður voru Skólagarðar Reykjavíkur.

Það kostar 5.000 krónur að leigja og rækta 100 fermetra garðland í Skammadal en 4.400 krónur fyrir 20 fermetra skika innan borgarmarkanna. Leiguverð hefur lítið sem ekkert hækkað á síðastliðnum árum.

Ekki fengust upplýsingar um hversu margir garðar eru nýttir af þeim sem úthlutað var nema í Þorragötu þar sem aðeins átta garðar af áttatíu eru ekki í nýtingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×