Innlent

Vopnað rán í Samkaupum: Sami ræningi og um helgina?

Bjarki Ármannsson skrifar
Á myndinni lengst til vinstri sést maðurinn sem rændi sömu verslun um helgina.
Á myndinni lengst til vinstri sést maðurinn sem rændi sömu verslun um helgina.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar nú manns sem framdi rán í versluninni Samkaup í Hófgerði 30 í Kópavogi í dag, en tilkynning um málið barst lögreglu kl. 13.50.

Ræninginn, sem sést á meðfylgjandi myndum, ógnaði starfsfólki með hnífi og hafði síðan á brott með sér einhverja fjármuni. Samkvæmt lögreglu er hann um 180 sentímetrar á hæð, ljóshærður, grannvaxinn og var klæddur í gráa hettupeysu, bláar gallabuxur og svarta Nike skó. Þá huldi hann andlit sitt með svörtum klút.

Talið er að maðurinn sé í kringum tvítugt, eða rúmlega það. Þess má geta að rán var framið í sömu verslun síðastliðinn laugardag og er það óupplýst. Ein myndanna er úr því ráni, en á henni er ræninginn berhöfðaður. Grunur leikur á að um sama mann sé að ræða og rændi verslunina í dag.

Þeir sem geta gefið upplýsingar um ræningjann eru beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444 1000, en upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið adalsteinna@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×