Innlent

Viðskiptafræðingurinn sviptur prófgráðunni: Fordæmalaus fjarlæging ritgerðar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá Háskólatorgi Háskóla Íslands
Frá Háskólatorgi Háskóla Íslands VÍSIR/VILHELM
Ritgerð Halldórs Gunnarssonar, sem grunaður er um ritstuld við gerð lokaritgerðar sinnar í viðskiptafræði, var fjarlægð úr Skemmunni, gagnasafni háskólanna, að beiðni viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands í gær.

Prentað eintak af ritgerð Halldórs var þá einnig fjarlægt af Þjóðarbókhlöðunni þar sem það hafði legið frá því í febrúar síðastliðnum.

Heimildir Vísis herma að þetta sé fyrsta skipti sem ritgerð er fjarlægð eftir útskrift nemenda. Margar hafi verið fjarlægðar að beiðni nemenda sem vilja fresta útskrift og lagfæra lokaritgerðir sínar en aldrei hefur það verið gert eftir að þeir hafa fengið skírteinið í hendurnar.

Þetta bendir þá einnig sterklega til að viðskiptafræðingurinn hafi verið verið sviptur prófgráðu sinni. Helst það í hendur við heimildir Vísis sem herma að niðurstaða viðskiptafræðideildar hafi verið á þá leið að gefa Halldór 0 fyrir ritgerðina, í stað 8 sem hann fékk við útskrift. Honum sé þannig gert að skila inn nýrri ritgerð vilji hann endurheimta gráðu sína frá viðskiptafræðideild Háskólans.

Málið verið í rannsókn frá því í apríl

Ritgerðin var lokuð almenningi á Skemmunni þann 28. maí síðastliðinn eftir að upp kom grunur um að Halldór hafði skáldað ummæli viðmælenda sinna.

Fréttablaðið fjallaði fyrst um málið þann 5. júní síðastliðinn. Ritgerðin, sem fjallar um ferðaþjónustu á Suðurlandi, byggir meðal annars á viðtölum og gögnum frá ferðaþjónustuaðilum á svæðinu. Meðal þeirra er Friðrik Pálsson, hótelstjóri á Hótel Rangá. Friðrik kannaðist hins vegar ekki við að hafa rætt við höfund ritgerðarinnar. Ummælin séu uppspuni.

Síðan þá hafa tveir aðrir nafngreindir viðmælendur stigið fram og tekið í sama streng. Mál Halldórs hefur verið til rannsóknar innan háskólans frá því í apríl og kom niðurstaða í málið nú fyrir skömmu. Háskólinn mun þó ekki greina frá því hver niðurstaða skólans er og vísar til ráðlegginga lögfræðinga skólans. Skólinn tjái sig ekki um málefni einstakra nemenda.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×