Innlent

Hlaupurum á Laugaveginum gengur vel

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Laugavegshlaupið hefst við skála Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum og lýkur í Húsadal í Þórsmörk.
Laugavegshlaupið hefst við skála Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum og lýkur í Húsadal í Þórsmörk. mynd/laugavegshlaupið
Fjögur hundruð hlauparar voru ræstir af stað klukkan 9 í morgun Í Laugavegshlaupinu en metþátttaka er í hlaupinu í ár. Laugavegurinn er ein vinsælasta gönguleið landsins og alls 55 kílómetrar. Mikil hækkun er á leiðinni og því reynir mikið á hlauparana. Auk þess er óvenju mikill snjór nú á Laugaveginum en Anna Lilja Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi hlaupsins, segir hlaupurum þó ganga vel.

„Það var mjög kalt og vindur þarna í morgun en það jákvæða var að vindurinn var í bakið þannig að það voru allir bara nokkuð hressir að fara af stað. Auðvitað er alltaf smá stress því það er óvenju mikill snjór á leiðinni en fyrstu mönnum gekk samt bara mjög vel. Þorbergur Ingi Jónsson, sem sigraði í fyrra, var kominn í Hrafntinnusker eftir 53 mínútur. Það eru 10 kílómetrar og var einmitt tíminn sem hann var búinn að stefna á þannig að þetta byrjaði bara mjög vel hjá öllum virðist vera.“

Að sögn Önnu byrjar snjórinn eftir um sex til sjö kílómetra og er þá samfelldur alveg í um átta kílómetra. Þá séu skaflar á fleiri stöðum á leiðinni en mestur snjór sé við hæsta punktinn, Hrafntinnusker.

Búast má við fyrstu mönnum í mark á milli klukkan eitt og tvö en Þorbergur Ingi, sigurvegarinn frá því í fyrra, leiðir hlaupið. Hann á besta tímann í Laugavegshlaupi en hann fór kílómetrana 55 í fyrra á 4 klukkustundum og 7 mínútum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×