Innlent

Hvassviðri og snjókoma um hásumar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Spáð er snörpum vindhviðum og hliðarvindi, allt að 30-35 metrum á sekúndu, á sunnanverðu Snæfellsnesi í nótt og fram á morgun.
Spáð er snörpum vindhviðum og hliðarvindi, allt að 30-35 metrum á sekúndu, á sunnanverðu Snæfellsnesi í nótt og fram á morgun. vísir/gva
Reiknað er með að það hvessi um landið vestanvert í nótt með lægð sem fer suður yfir landið.

Spáð er snörpum vindhviðum og hliðarvindi, allt að 30-35 metrum á sekúndu, á sunnanverðu Snæfellsnesi í nótt og fram á morgun en síðan mun lægja að því er fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni. Er það brýnt fyrir vegfarendum að það getur varasamt að ferðast með hjólhýsi og aftanívagna þegar svo hvasst er. Þá má einnig búast við snörpum hviðum á Kjalarnesi snemma í fyrramálið en lægja mun eftir klukkan 9.

Á Austurlandi mun snjóa ofan við 700 metra hæð og er því gert ráð fyrir krapa á Fjarðarheiði í fyrramálið.

Veðurhorfur á landinu næsta sólarhringinn samkvæmt spá Veðurstofu Íslands:

Norðaustan átt, yfirleitt 5-13 metrar á sekúndu en allt að 23 metrar á sekúndu sums staðar á fjallvegum á sunnanverðum Vestfjörðum og sunnanverðu Snæfellsnesi.

Skýjað með köflum eða léttskýjað, en lítilsháttar rigning eða súld norðan- og austanlands. Skúrir suðaustanlands.

Norðan 13-23 metrar á sekúndu vestanlands í fyrramálið en annars 5-13 metrar á sekúndu. Hvassast og hviður allt að 35 metrar á sekúndu hlémegin fjalla. Lægir smám saman upp úr hádegi.

Rigning á norðan-og austanverðu landinu en skýjað með köflum suðvestanlands. Hiti 4-16 stig, hlýjast suðvestanlands en kaldast fyrir norðan. Hiti nálægt frostmarki í nótt og slydda eða snjókoma norðan til á hálendinu.

Sjá nánar á veðurvef Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×