Innlent

Hafa heimildir til að veiða 383 hvali

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Hvalveiðivertíðin er nú í hámarki og snemma í morgun komu Hvalur 8 og 9 að landi í Hvalfirði með langreyðar. 

Kristján Loftsson forstjóri og eigandi Hvals hf. vildi ekki hleypa tökumanni og fréttamanni Stöðvar 2 inn í hvalveiðistöðina í morgun til að mynda þegar gert var að dýrunum og þurfti því tökumaður að koma sér fyrir á hæð fyrir ofan hvalveiðistöðina og mynda úr fjarlægð með aðdráttarlinsu.

Meðan starfsmenn Hvals hf. gerðu að dýrunum höfðu nokkrir ferðamenn komið sér fyrir á sama stað og tóku myndir en hvalveiðar Íslendinga þykja mjög umdeildar á alþjóðavettvangi.

Veiddar hafa verið 36 langreyðar á þessari vertíð en á sama tíma í fyrra höfðu verið veidd 40 dýr. Mest af kjötinu úr þessum dýrum er selt til Japans.

Á grundvelli tilmæla Hafrannsóknarstofnunar gaf sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra út leyfi til að veiða 154 langreyðar og 229 hrefnur á yfirstandandi vertíð. Þetta er það hámark sem Hafrannsóknarstofnun telur heimilt að veiða til að tryggja sjálfbýra nýtingu á stofnunum.

Gísli A. Víkingsson hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun.365/Þorbjörn Þórðarson
„Við teljum að þetta sé mjög varfærið mat og þetta er örugglega sjálfbært til lengri tíma litið. Þetta er endurskoðað á hverju ári og yfirfarið af vísindanefndum Alþjóðahvalveiðiráðsins og NAMMCO (innsk. Norður-Atlantshafs sjávarspendýraráðið),“ segir Gísli A. Víkingsson hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun.

Þau rök voru færð fyrir hvalveiðum þegar Íslendingar hófu að nýju veiðar á hvölum, fyrst í vísindaskyni og síðar árið 2006 í atvinnuskyni, að veiðarnar væru nauðsynlegar til að tryggja jafnvægi í lífríki sjávar í kringum Ísland. 

Eiga þessi rök ekki jafn mikið við nú og þá? „Jú, þau eiga eflaust jafn mikið við. Hins vegar er mjög flókið spursmál, sem er mjög erfitt að svara til hlítar hvernig þetta samspil virkar í sjónum. Það er svo sem ekkert í hendi með það, eitthvað ákveðið, sem við getum sagt í því sambandi um samspil milli fiskistofna og hvala,“ segir Gísli. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×