Sport

Langhlaupari vann gull í hindrunarhlaupi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnar hoppar í mark í dag.
Arnar hoppar í mark í dag. Vísir/Stefán
Arnar Pétursson, sem er aðallega þekktur sem langhlaupari, vann nokkuð öruggan sigur í 3000 m hindrunarhlaupi á Smáþjóðaleikunum í dag.

Arnar kom í mark á 9:22,16 sekúndum og forysta hans var slík að hann leyfði sér að hoppa yfir marklínuna.

„Ég stefndi að þessu og það var gaman að fá gullið,“ sagði Arnar sem var að keppa í greininni í fimmta sinn á ferlinum.

Arnar segir að hann hafi aðeins tekið samtals eina æfingu sérstaklega fyrir hindrunarhlaupið. „Hlaupin eru mun fleiri en æfingarnar,“ sagði Arnar sem segist njóta góðs af því að hafa æft körfubolta lengi.

„Þar er maður að hlaupa og hoppa til skipts. Maður er aðallega hræddur við vatnsgryfjuna í hindrunarhlaupinu en það hefur yfirleitt gengið afskaplega vel að komast í gegnum hana. Þetta virðist liggja ágætlega fyrir manni.“

„Það vantaði einhvern til að hlaupa 3000 m hindrun í Evrópubikarnum og eftir það hefur maður fallið meira og meira fyrir henni.“

„En ég held að ég taki þetta meira með hinu enn sem komið er. Ég þarf að bæta tæknina en annars eru æfingarnar ótrúlega svipaðar æfingum fyrir langhlaupin.“

Þrátt fyrir allt segist hann sterkastur í þessari grein og eigi flest IAAF-stig í 3000 m hindrunarhlaupi af öllum þeim sem hann keppir í.

„Mitt markmið er að komast nær níu mínútunum og það er tækifæri til að gera það í Evrópukeppninni í Búlgaríu þar sem margir sterkir hlauparar verða. Það er erfitt að gera það þegar maður er nánast einn eins og í dag.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×