Innlent

Nafngift dregst þar sem örnefnanefnd er óskipuð

Kristján Már Unnarsson skrifar
Níu mánuðum eftir að jarðeldur kom upp norðan Dyngjujökuls er hvorki komið nafn á eldstöðina, nýju gígana né nýja hraunið. Það sem tefur núna er að engin örnefnanefnd hefur verið starfandi í landinu síðustu þrjá mánuði.

Það var strax á upphafsdögum eldgossins í Holuhrauni sem byrjað var að kalla eftir nöfnum. Rifjað var upp að þegar Surtseyjargosið hófst árið 1963 voru menn snöggir að gefa því nafn, þá liðu ekki nema rúmar þrjár vikur frá gosbyrjun þar til menntamálaráðherra tilkynnti nafnið Surtsey, að tillögu örnefnanefndar, og átti gosið þó eftir að standa í fjögur ár.

Núverandi ráðherra, Illugi Gunnarsson, ákvað hins vegar í vetur að bíða þess að Alþingi samþykkti ný örnefnalög en samkvæmt þeim yrði frumkvæði að nafngift nýrra náttúrufyrirbæra fært heim í hérað til viðkomandi sveitarstjórnar, sem í þessu tilviki er Skútustaðahreppur.

Yngvi Ragnar Kristjánsson, oddviti Skútustaðahrepps.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Gosinu lauk í febrúarlok og þremur dögum síðar samþykkti Alþingi nýju örnefnalögin. Oddviti Skútustaðahrepp, Yngvi Ragnar Kristjánsson, sagði þá að sveitarstjórnin ætlaði að ganga rösklega í málið og stefnt væri á nafngift fyrir sumardaginn fyrsta. 

Ekki gekk það eftir og segir oddvitinn ástæðuna þá að beðið sé eftir því að ný örnefnanefnd verði skipuð en henni er ætlað að veita umsögn um ný nöfn. 

Síðasta örnefnanefnd missti umboð sitt við gildistöku nýju laganna í byrjun marsmánaðar, að sögn síðasta formanns, Þórunnar Sigurðardóttur, og síðan hefur engin örnefnanefnd verið til í landinu. Þegar ráðuneyti menntamála er spurt hvað líði skipan nýrrar örnefndanefndar fást þau svör að enn vanti tilnefningu frá einum aðila, ráðherra sveitarstjórnarmála. Menn vonist þó til að það klárist á næstu dögum að skipa nýja nefnd.


Tengdar fréttir

Nú mega Mývetningar velja eldstöðinni nöfn

Ný lög um örnefni voru samþykkt frá Alþingi í vikunni. Samkvæmt þeim er það nú í höndum Mývetninga að hafa frumkvæði að nafngift þeirra nýju náttúrufyrirbæra sem urðu til í eldgosinu í Holuhrauni.

Hvað á nýja eldstöðin að heita?

Fjölmargar tillögur um nafn á nýju eldstöðina hafa borist fréttastofu. Flestir leggja til Drekahraun og þá hafa einnig fjölmargir lagt til Bárðarhraun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×