Innlent

Eldurinn kviknaði fyrir „óvitaskap“

Samúel Karl Ólason skrifar
Reykurinn sem kom frá eldinum var mikill og þykkur.
Reykurinn sem kom frá eldinum var mikill og þykkur. Vísir/Vilhelm
„Það liggur fyrir að tveir níu ára gamlir drengir voru að fikta með eld. Bara óvitaskapur,“ segir Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Selfossi. Drengirnir höfðu fundið kveikjara og voru að kveikja í spýtnabraki á svæðinu við Set á Selfossi. Þar að auki höfðu þeir fundið brúsa með vökva sem líklegast var eldfimur.

Þeir höfðu hellt honum niður þarna í kring og því fór eldurinn kröftuglega af stað. Barnaverndarnefnd fer nú yfir málið með foreldrum, en um slys var að ræða.

Töluverður eldur kom upp á lóð Sets og kviknaði í rörastafla. Þorgrímur segir forsvarsmenn Sets tala um tíu til fimmtán milljón króna tjón, en þar að auki varð reyktjón á nálægu húsi. Rýma þurfti um 50 hús á Selfossi vegna reyks, sem var mikill og svartur. Um 200 manns yfirgáfu heimili sín en um 25 komu í fjöldahjálparmiðstöð sem sett hafði verið upp vegna eldsins.

Þorgrímur segir að slökkvistarf hafi gengið mjög vel og að margir hafi komið að starfinu. „Þetta fór betur en á horfðist.“


Tengdar fréttir

Leita ungmenna sem sáust á svæðinu áður en eldurinn kviknaði

Lögreglan á Suðurlandi leitar nú ungmenna eða jafnvel barna, sem ábendingar hafa borist um að hafi sést á lagersvæði plaströraverksmiðjunnar Sets á Selfossi rétt áður en mikill eldur gaus þar upp um kvöldmatarleitið í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×