Skoðun

Um öryggismál ferðamanna á hálendinu og rannsóknir

Hans Kristjánsson skrifar
Svokölluðum virkum ferðamönnum fjölgar hér ár frá ári og stór hluti þeirra sækir hálendið heim í leit að ævintýrum í stórbrotnu landslagi. Þetta eru bæði innlendir og erlendir ferðamenn, sem í ríkara mæli sækja í slíkar ferðir, að vetri til ekki síður en að sumri.

Einn af þeim þáttum sem mun styðja við Ísland sem áhugaverðan ferðamannastað í framtíðinni er að öryggismál, og þá sérstaklega á hálendinu, séu í viðunandi horfi. Ef horft er til skipulagsins þ.e. hverjir fara með þessi mál á hálendinu hér á landi og upplýsingagjöfina, sem þeim ber að sinna, þá er ljóst að átaks er þörf. Það þarf að veita miklu meira fé í rannsóknir og kannanir á innviðum ferðaþjónustunnar og þar á meðal öryggismálum. Þetta er mikilvægt í víðu samhengi en einkum til að:

1. Skilja mikilvægi ferðamennskunnar fyrir ákveðin svæði, land og áfangastaði.

2. Hjálpa greininni og yfirvöldum við skipulagningu á innviðum ferðamennskunnar

3. Efla ímynd og markaðsmál og skilja betur þá þætti sem þar hafa áhrif eins og öryggismál. 



Ferðaþjónustan og aðrar atvinnugreinar tengdar henni veltu um 275 milljörðum árið 2013 og greinin aflaði meiri gjaldeyristekna en sjávarútvegur og álframleiðslan. (Ferðamálastofa 2014). Í ljósi þessa er það afar undarlegt, svo ekki sé meira sagt, að framlag ríkisins til greinarinnar hér á landi af heildar rannsóknarfé árið 2013 hafi aðeins verið 0.32% eða 168 milljónir. Á sama tíma fékk sjávarútvegur og landbúnaður um 4 milljarða og áliðnaðurinn um 1.3 milljarða. Þarna er verulegra viðhorfsbreytinga þörf og hugarfarsbreyting ráðamanna æskileg. Umræðan og ákvarðanir ráðamanna um innviði og skipulag greinarinnar verður hvorki fugl né fiskur nema rannsóknir verði stórefldar í ferðamennsku.

Brátt fara hálendisvegir hér á landi að opnast og umferð um þá mun aukast í takt við aukinn ferðamannastraum. Könnun sem gerð var á Kili sumarið 2013 staðfesti að allt of stór hópur erlendra gesta sem heimsækja Kjöl er illa upplýstur um akstur og aðra umferð á hálendinu. Hér á landi hafa verið farnar nokkrar leiðir til að koma upplýsingum til ferðamanna og nægir að benda á safetravel.is og visiticeland.is. Það er þó áhyggjuefni, samkvæmt niðurstöðum umræddrar könnunar (2013), að allt of stór hluti erlendra ferðamanna (46%) á Kili nálgaðist ekki upplýsingar um akstur eða ferðalög á hálendinu áður en til ferðarinnar kemur.

Könnunin á Kili 2013 sýndi einnig að internetið er sá miðill sem flestir ferðamenn nýta sér við undirbúning ferðar. Það er því sá vettvangur sem helst skal horfa til við upplýsingagjöf. Einnig hlýtur ferðaþjónustan að gera ríka kröfu til þeirra sem reka bílaleigur hér á landi að upplýsingum um akstur á hálendinu verði án undantekninga dreift við útleigu bifreiða. Það er umhugsunarefni hvort ekki beri að skilyrða þessa ákveðnu upplýsingaskyldu rekstrarleyfi viðkomandi fyrirtækja.

Það þarf einnig, með einhverjum hætti, að vekja íslendinga til umhugsunar um öryggismál varðandi ferðalög á hálendinu. Ef marka má könnunina sem gerð var á Kili 2013 þá er drjúgur hluti ferðamanna á hálendinu Íslendingar (26%) og þótt flestir þeirra telji sig vana akstri á malarvegum og á vegslóðum þá eru fjallgöngur og ferðalög um hálendið jafn hættulegt þeim og erlendum gestum. Þess vegna þarf sérstaklega að hugsa til þessa ákveðna markhóps. Miðlun upplýsinga gegnum menntakerfið, netið og aðra miðla er ein leið og hægt er að sjá fyrir sér átak svipað og gert er í umferðarmálum og í baráttunni við vímuefnin. Framhaldsskólar landsins gætu gengt mikilvægu hlutverki í þessu efni.

Öryggismál á hálendinu snúa einnig að ferðamanninum sjálfum. Vilja hans og getu til að afla sér upplýsinga og þar skiptir reynsla líka máli. Það verða alltaf hrikaleg fjöll sem freista, það verða alltaf fossandi ár sem menn þurfa að komast yfir og það verða áfram vegir í misjöfnu ásigkomulagi sem hlykkjast eftir hálendinu með varhugaverðum beygjum og hæðum. Eina færa leiðin til að auka öryggi ferðamanna á hálendinu er fræðsla, markviss upplýsingagjöf og strangar öryggiskröfur ferðaþjónustufyrirtækja sem skipuleggja ferðir inn á hálendið og starfa þar. Að þeirri vinnu koma bæði stjórnvöld, sveitarstjórnir og fulltrúar atvinnugreinarinnar. Allar ákvarðanir í þessu svo brýna verkefni verður að byggja á fyrirliggjandi rannsóknum eða könnunum um hegðun ferðamannanna sjálfra.

Afþreying ferðamanna á hálendi Íslands mun, þegar öllu er á botnin hvolft, afmarkast af landslagsgerðinni og ferðamáta ferðamannana sjálfra. Ef með skipulögðum hætti er hægt að flokka og ramma inn alla þá þætti sem máli skipta við skipulag öryggismála á hálendinu þá verður einfaldara að bregðast við auknum ferðamannastraumi inn á hálendi Íslands.

Hegðun ferðamannanna er næstum eins margbreytileg og þeir eru margir. Mannslíf eru dýrmæt og neikvæð umfjöllun um hættur hálendisins getur haft daprar afleiðingar fyrir ferðaþjónustuna hér á landi. Hálendi Íslands er uppspretta ævintýra ferðamennsku (adventure tourism). Í slíkri ferðamennsku er öryggisþátturinn mikilvægastur svo að ferðalagið verði ánægjulegt og þörfum og væntingum ferðamannanna fullnægt. Sjálfbærni og áframhaldandi vöxtur þessarar nýju gerðar ferðamennsku útheimtir að öryggismál verði sett í forgang. Skortur á faglegri umræðu byggða á fyrirliggjandi könnunum eða rannsóknum um öryggismál ferðamanna á hálendi Íslands mun jafnvel verða til þess að ferðaþjónustan lendir í ógöngum í komandi framtíð. Eflum rannsóknir í ferðamennsku til jafns við aðrar atvinnugreinar í landinu!




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×