Innlent

Nafn mannsins sem lést í umferðarslysi á Biskupstungnabraut

Birgir Olgeirsson skrifar
Hallgrímur Þ. Magnússon. Hann var fæddur 29. september 1949  búsettur að Bjarkarbraut 18 í Reykholti í Biskupstungum.
Hallgrímur Þ. Magnússon. Hann var fæddur 29. september 1949 búsettur að Bjarkarbraut 18 í Reykholti í Biskupstungum. Vísir
Maðurinn sem lést í umferðarslysi á Biskupstungnabraut í gær hét Hallgrímur Þ. Magnússon. Hann var fæddur 29. september 1949  búsettur að Bjarkarbraut 18 í Reykholti í Biskupstungum.

Hallgrímur lætur eftir sig eiginkonu, fjórar uppkomnar dætur og níu barnabörn. Hann var læknir og sinnti störfum sínum hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, bæði í Hveragerði og á Selfossi

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi kemur fram að slysið átti sér stað á Biskupstungnabraut, nokkuð ofan við Borg í Grímsnesi. Tilkynning barst til lögreglu klukkan 13:57 og fóru lögreglu, sjúkralið og slökkvilið á vettvang.

Árekstur varð með tveimur bifreiðum sem ekið var í gagnstæðar áttir. Erlend hjón á ferðalagi voru í öðrum bílnum og sluppu þau lítið meidd en eru þó enn til eftirlits á sjúkrahúsi í Reykjavík.

Bifreið þeirra kastaðist út fyrir veginn og valt við áreksturinn. Hallgrímur var einn í hinni bifreiðinni og slasaðist alvarlega. Hann var fluttur af vettvangi með sjúkrabifreið til móts við þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flutti hann á sjúkrahús í Reykjavík.

Endurlífgunartilraunir sem vegfarendur, þ.m.t.  ökumaður og farþegi hinnar bifreiðarinnar, hófu á vettvangi og var fram haldið á leið á sjúkrahús af sjúkraliði báru ekki árangur og var hann úrskurðaður látinn fljótlega eftir komu þangað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×