Innlent

Segja hvalveiðar hafa lítil áhrif á samskipti ríkjanna

Svavar Hávarðsson skrifar
Hvalveiðar Íslendinga eru Bandaríkjamönnum þyrnir í augum.
Hvalveiðar Íslendinga eru Bandaríkjamönnum þyrnir í augum. Fréttablaðið/Vilhelm
„Nei, ég hef ekki orðið var við neina breytingu í samskiptum ríkjanna,“ segir ­Birgir Ármannsson, formaður utan­ríkismálanefndar, um afstöðu bandarískra stjórnvalda til hvalveiða Íslendinga og upplýsinga sem koma fram í minnisblaði Johns Kerry utanríkisráðherra til Baracks Obama Bandaríkjaforseta frá því í janúar. Minnisblaðið fjallar um hvernig svokölluðu Pelly-lagaákvæði hefur verið framfylgt gagnvart Íslendingum frá því í apríl í fyrra.Birgir segir að öll samskipti er lúta að öryggismálum, viðskiptum eða samstarfi á vettvangi fjölþjóðlegra samtaka eða fyrirtækja hafi farið vaxandi, enda áherslumál íslenskra stjórnvalda að auka þau.Í bréfi Kerrys til Bandaríkjaforseta eru tíunduð mörg dæmi um diplómatískar aðgerðir í samskiptum ríkjanna. Veigamest virðist að bandarískir ráðherrar hafa ekki komið til Íslands í opinberar heimsóknir og tvíhliða samvinna er alltaf metin í ljósi hvalveiðanna, eins og þar er m.a. tíundað.Hvað varðar heimsóknir bandarískra ráðherra segir Birgir það rétt að um þær hafi ekki verið að ræða frá 1. apríl í fyrra, en svo hafi líka verið mun fyrr. Spurður hvort það hafi verið vegna hvalveiðanna, en strax árið 2011 var Pelly-ákvæðinu beitt gegn Íslandi, segir Birgir að honum sé ekki kunnugt um það.„En auðvitað höfum við heyrt á fulltrúum Bandaríkjamanna að hvalveiðarnar eru viðkvæmt mál í samskiptum ríkjanna og fulltrúar þeirra taka þetta oft upp,“ segir Birgir og bætir við að eitt skýrasta dæmið um aðgerðir Bandaríkjastjórnar sé þegar Íslendingum var ekki boðið á stóra alþjóðlega hafráðstefnu, Our Ocean, sem utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna stóð fyrir í júní í fyrra.Pelly-viðaukinn við bandarísk lög um fiskveiðistjórn kveður á um að veiki ríki alþjóðlegar aðgerðir til verndar lífríkinu, skuli forsetinn kynna fyrir þinginu til hvaða refsiaðgerða hann hyggist grípa gegn viðkomandi ríki.Barack Obama forseti kynnti aðgerðir 1. apríl sl. sem byggjast á því að bandarísk stjórnvöld telja að hvalveiðar við Ísland brjóti gegn banni CITES við verslun með hvalaafurðir. Lúta aðgerðirnar að veiðum á langreyði en síður hrefnuveiðum og sölu á innanlandsmarkaði.Geir H. Haarde, sem um áramót tók við starfi sendiherra í Bandaríkjunum, segist á sínum starfstíma ekki hafa orðið var við að hvalveiðar Íslendinga stæðu í vegi fyrir góðum samskiptum íslensku utanríkisþjónustunnar við bandaríska stjórnkerfið.„Hins vegar liggur fyrir að skoðanaágreiningur um þetta mál hefur verið fyrir hendi í meira en aldarfjórðung,“ segir hann og kveður bandarískum embættismönnum skylt að taka málið reglulega til umræðu á fundum með íslenskum stjórnmála- og embættismönnum. „Íslensk stjórnvöld standa hins vegar föst á okkar rétti varðandi hvalveiðar.“Guðmundur Árni Stefánsson, fyrrverandi sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, segir sína reynslu þau rúmu þrjú ár sem hann starfaði sem sendiherra Íslands í Washington vera þá að opinberir aðilar hafi komið sjónarmiðum sínum vegna hvalveiða ítrekað á framfæri við fulltrúa Íslands. Á sama hátt hafi íslensk stjórnvöld gert grein fyrir sjónarmiðum Íslands til málsins. „Sá skoðanamunur kom ekki í veg fyrir eðlileg samskipti fulltrúa íslensku utanríkisþjónustunnar við embættis- og ráðamenn í Bandaríkjunum, né við aðra bandaríska aðila sem samskipti voru höfð við vegna íslenskra hagsmuna,“ segir Guðmundur Árni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.