Enski boltinn

Svona stilla Carragher og Neville upp fyrir stórslaginn | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Wayne Rooney er auðvitað í liði Manchester United.
Wayne Rooney er auðvitað í liði Manchester United. vísir/getty
Einn stærsti leikur ársins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta fer fram á sunnudaginn þegar Liverpool  tekur á móti erkifjendunum Manchester United.

Leikurinn hefur mikla þýðingu að þessu sinni þar sem liðið berjast um fjórða sætið sem gefur þátttökurétt í Meistaradeildinni næsta vetur.

Manchester United er í fjórða sætinu með 56 stig en Liverpool er með 54 stig í fimmta sæti og getur komist upp fyrir United með sigri á heimavelli á sunnudagin.

Jamie Carragher, fyrrverandi miðvörður Liverpool, og Gary Neville, fyrrverandi bakvörður og fyrirliði Manchester United, völdu byrjunarliðin sem þeir vilja sjá í leiknum í þættinum vinsæla Monday Night Football á Sky Sports í gærkvöldi.

Carragher vill ekki að Steven Gerrard, góðvinur sinn og fyrirliði Liverpool, byrji leikinn því liðið hefur spilað svo vel að undanförnu án hans.

„Liðið er á góðum skriði og því er erfitt að komast í liðið. Þetta er erfitt en við lentum allir í þessu undir lok ferilsins,“ segir Carragher.

Hann vill heldur ekki að Daniel Sturridge byrji leikinn þar sem hann er ekki kominn í 100 prósent stand og bara menn sem eru alveg klárir eiga að spila svona stórleik.

Byrjunarlið Carraghers (3-4-3): Simon Mignolet - Emre Can, Martin Skrtel, Mamadou Sakho - Lazar Markovic, Jordan Henderson, Joe Allen, Alberto Moreno - Philippe Coutinho, Adam Lallana, Raheem Sterling.

Gary Neville segir níu leikmenn pottþétta í liðið hjá Manchester United í raun tíu því hann vill hafa Daley Blind í vinstri bakverðinum.

Eina spurningamerkið segir hann hvort Juan Mata haldi sæti sínu á hægri kantinum eða hvort Ángel di María komi aftur inn eftir að taka út leikbann.

„Ég myndi nota Di María því hann er fljótari og United þarf á hraða í skyndisóknum að halda,“ segir Gary Neville.

Þá bendir hann á að Marouane Fellaini verði líklega klínt á Emre Can og Tyrkinn látinn finna fyrir því í leiknum.

Byrjunarlið Neville (4-3-3): David De Gea - Antonio Valencia, Chris Smalling, Phil Jones, Daley Blind - Ander Herrera, Marouane Fellaini, Michael Carrick - Ángel di María, Ashley Young, Wayne Rooney.

Alla umræðuna má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×