Konan var leidd út úr íbúðinni í handjárnum um klukkan eitt, samkvæmt sjónarvotti. Samkvæmt upplýsingum Vísis er konan fædd 1963 og því á sextugsaldri.
Gaf sig sjálf fram
Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi, segir í samtali við fréttastofu að lögreglan hafi sett sjónpóst á húsið á meðan beðið var eftir sérsveit ríkislögreglustjórans. „Eftir skamma stund kom viðkomandi út og gaf sig á vald lögreglu,“ segir hann.
Oddur segir að ekki sé hægt að fullyrða um að alvöru skotvopn hafi verið að ræða.

Ógnaði 18 ára nemanda í FSU
„Sonur minn var í á leiðinni í leikfimitíma þegar bíll stöðvar fyrir framan hann og kona dregur fram byssu og öskrar á hann bamm, bamm,“ segir faðir átján ára nemanda við Fjölbrautaskóla Suðurlands í samtali við Vísi í morgun. Atvikið átti sér stað um klukkan hálf tíu í morgun.
„Hún miðaði byssunni að stráknum sem hljóp strax í burtu og faldi sig inni í runna.“
Maðurinn sagði þá að umsátursástands væri fyrir utan blokk konunnar við Ástjörn á Selfossi. Hún hafi áður komið við sögu hjá lögreglu en síðasta sumar mun hún hafa otað hnífi að fólki á Selfossi.

Með viðbúnað inni í blokkinni
Íbúi í blokkinni sagði í samtali við Vísi rétt áður en að konan var handtekin að lögregluþjónar væru á stigaganginum í húsinu og fyrir utan.
„Þeir eru tveir einkennisklæddir lögregluþjónar á stigaganginum og bíll niðri á stæði og sjúkrabíll úti á horni,“ sagði Jack Hrafnkell Daníelsson í samtali við Vísi. „Þeir standa bara hérna uppi í tröppunum.“
Ert þú með upplýsingar? Hafðu samband í síma 5125100 eða sendu póst á ritstjorn@visir.is



