Innlent

Máttu ekki fletta sambýlismanni upp í afskriftalista

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ergo neitaði konunni um að taka yfir bílalán því sambýlismaður hennar var á afskriftalista Glitnis.
Ergo neitaði konunni um að taka yfir bílalán því sambýlismaður hennar var á afskriftalista Glitnis. Vísir/Vilhelm
Persónuvernd hefur úrskurðað að Ergo, fjármögnunarþjónustu Íslandsbanka, hafi verið óheimilt að fletta sambýlismanni konu upp í afskriftalista Glitnis en konan ætlaði að taka yfir bílalán. Umsókn konunnar um yfirtökun á láninu var hafnað vegna þess að maðurinn var á afskriftalista Glitnis.

Maðurinn taldi uppflettinguna tilefnislausa þar sem hann hafi ekki verið að taka á sig neina fjárhagslega skuldbindingu. Þá eru hann og konan ekki gift heldur í sambúð auk þess sem maðurinn hafi aldrei tekið lán hjá þeirri kennitölu sem Glitnir er á í dag.

Í 8. grein laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga kemur fram hvenær vinna má með persónuupplýsingar og þarf að uppfylla einhverja af kröfum þess ákvæðis við vinnslu upplýsinganna. Í því tilfelli sem hér um ræðir getur 7. tölul. 1. mgr. 8. gr., sem segir að vinna megi með persónuupplýsingar ef nauðsynlegt sé að gæta lögmætra hagsmuna „nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra.“

Þá segir í úrskurði Persónuverndar að í þessu tiltekna máli beri „að líta beri til þess hver sé lagaleg staða sambýlismaka hvors gagnvart öðrum. Nánar tiltekið hefur sú meginregla í íslenskum rétti hér sérstakt vægi að maður ber einn ábyrgð á sínum fjárhagslegu skuldbindingum, enda þótt hann hafi tekið upp óvígða sambúð með öðrum einstaklingi, nema sérstakur löggerningur leiði til annars. Ekkert liggur fyrir í máli þessu um að gerður hafi verið einhver slíkur löggerningur. Þá má geta þess að þær reglur um gagnkvæma framfærsluskyldu og takmarkanir á eignarréttindum sem gilda í hjúskap, sbr. m.a. VII. og IX. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1993, gilda ekki í óvígðri sambúð.“

Af þessu leiðir að Ergo, fjármögnunarþjónustu Íslandsbanka, braut lög um persónuvernd þegar þau flettu sambýlismanni konunnar upp í afskriftalistanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×