Innlent

Hafnfirskur bæjarfulltrúi sagður kríta liðugt

Jakob Bjarnar skrifar
Rósa og Guðlaug furða sig á fullyrðingum Gunnars Axels að hann kannist ekkert við málið sem hann tjáði sig um fyrir fáeinum mánuðum á bæjarstjórnarfundi.
Rósa og Guðlaug furða sig á fullyrðingum Gunnars Axels að hann kannist ekkert við málið sem hann tjáði sig um fyrir fáeinum mánuðum á bæjarstjórnarfundi.
Stjórn Strætó bs. mun taka ákvörðun á stjórnarfundi á morgun um að hækka gjald í strætó um nærri 15 prósent. Vísir fjallaði um málið í morgun og þar er meðal annars rætt við Gunnar Axel Axelsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar í Hafnarfirði, sem undrast þessa tilhögun: „Þessi ákvörðun kemur mér mjög á óvart, enda hefur engin umræða farið fram um málið í sveitarstjórnum þeirra sveitarfélaga sem eiga aðild að Strætó bs. Ég skil ekki þessa ákvörðun og tel hana vanhugsaða,“ segir Gunnar Axel.

Félagar Gunnars Axels í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, nánar tiltekið oddvitar meirihlutans, Rósa Guðbjartsdóttir Sjálfstæðisflokki og Guðlaug Kristjánsdóttir oddviti Bjartrar framtíðar, furða sig á þessum ummælum.

„Sannleikurinn er alltaf sagna bestur, og menn verða að kannast við orð sín og standa við þau,“ segir Rósa.

Og Guðlaug vekur sérstaka athygli á málinu á Facebook, hún segir hægan leik að sanna það að Gunnar Axel tali gegn sér betri vitund. Guðlaug deilir upptöku frá bæjarstjórnarfundi í Hafnarfirði frá 17. september síðastliðnum. Einar Birkir Einarsson, stjórnarmaður í Strætó kynnti það sem á döfinni er hjá fyrirtækinu en til andsvars kom „Gunnar Axel Axelsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar og forveri Einars Birkis í stjórn Strætó, auk þess að taka til máls undir sama lið um 10 mínútum síðar. Það er því ekki rétt sem sami Gunnar Axel greinir frá í Fréttablaði dagins í dag, að hann kannist ekki við neina umræðu um gjaldskrár Strætó í sveitarstjórnunum sem aðild eiga að fyrirtækinu,“ segir Guðlaug.

Uppfært 15:39

Vísar ásökunum um lygi alfarið á bug

Vísir ræddi við Gunnar Axel um þessar ásakanir og hann telur þær alfarið úr lausu lofti gripnar:

„Þarna vísar oddviti Bjartrar framtíðar í umræður í bæjarstjórn, sem fram fóru í september 2014. Þar lágu ekki fyrir neinar tillögur um gjaldskrárbreytingar en fulltrúi Bjartrar framtíðar nefndi það í ræðu sinni að það yrði eitthvað sem væri til skoðunar. Ég fór sérstaklega yfir það í minni ræðu hversu mikilvægt það væri að horfa ekki blint á markmið um aukna kostnaðarhlutdeild farþegar, vegna þess að aðal markmið okkar væri að auka hlutdeild Strætó í öllum samgöngum almennt. Hækkanir á gjaldskrám geta svo augljóslega unnið gegn þessu markmiði,“ segir Gunnar Axel og vísar því alfarið á bug að hann hafi farið með rangt mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×