Innlent

Plássleysi í íslenskum fangelsum: Aldrei fleiri dómar fyrnst en í fyrra

Bjarki Ármannsson skrifar
Alls fyrndust 32 fangelsisdómar á liðnu ári vegna plássleysis í fangelsum. Árið 2013 fyrndust tuttugu dómar en Páll Winkel fangelsisstjóri segir í viðtali við Reykjavík síðdegis í dag að fangelsisyfirvöld hafi hreinlega ekki þekkt þetta ástand árin þar á undan.

„Þetta felst einfaldlega í því að dómurinn er ekki fullnustaður,“ segir Páll. „Menn eru þá dæmdir í fangelsi en þeir þurfa að bíða svo lengi að þeir fara einfaldlega ekki inn.“

Alvarleg brot á boðunarlistanum

Fyrningartími dóma er eins og gefur að skilja mislangur eftir því hversu alvarleg brotin eru. Óskilorðsbundinn dómur allt að einu ári fyrnist á fimm árum en fjögurra ára fangelsisdómur fyrnist á tíu árum. Páll segir að enn sem komið er sé um að ræða „tiltölulega stutta“ dóma, til að mynda fyrir umferðarlagabrot.

„Við forgangsröðum, þannig að við tökum þá sem eru virkir í brotum og þá sem eru dæmdir fyrir alvarlegri brot,“ segir Páll. „En vissulega eru á boðunarlistanum, þó dómarnir hafi ekki fyrnst, menn sem eru dæmdir fyrir alvarleg brot. Eftir því sem plássum fækkar, því fleiri þurfa að bíða.“

Refsingar þurfi að koma fljótt

Biðlistar í fangelsi eru mjög langir og hafa fangelsisyfirvöld lengi kvartað yfir ástandinu. Nýtt fangelsi á að opna á Hólmsheiði seint í ár en aftur á móti þarf fangelsið á Kópavogsbraut að loka hálfu ári fyrr en gert var ráð fyrir vegna skorts á fjármagni. Páll tekur undir það að það sé varhugavert að afbrotamenn séu látnir bíða svo lengi eftir að geta afplánað dóm sinn.

„Jú, það er varhugavert og kannski ekki síst ef maður veltir fyrir sér fræðunum sem slíkum,“ segir hann. „Til þess að refsingar nái árangri þurfa þær að koma mjög fljótt í kjölfar þess að viðkomandi er dæmdur. Menn verða að ná tengingunni.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×