Erlent

Lögleg sala maríjúana getur ekki keppt við svarta markaðinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Kannabis var lögleitt í Washington árið 2012 en þar hefur svarti markaðurinn stækkað gífurlega.
Kannabis var lögleitt í Washington árið 2012 en þar hefur svarti markaðurinn stækkað gífurlega. Vísir/AFP
Helst var reiknað með því að Washington og Colorado ríki Bandaríkjanna, þyrftu að kljást við yfirvöld í Washington DC, eftir að kannabis var gert löglegt í ríkjunum. Það hefur þó ekki reynst rétt, en baráttan hefur verið hvað hörðust við maríjúana í lækningaskyni og svarta markaðinn.

Kannabis var lögleitt í Washington árið 2012 en þar hefur svarti markaðurinn stækkað gífurlega. Fjölmargir sölustaðir hafa verið opnaðir og sumir hverjir auglýsa að salan sé ólögleg. Forsvarsmenn löglegra sölustaða segja skatta svo háa að ómögulegt sé að keppa við svarta markaðinn.

Þá segir AP fréttaveitan frá því að ríkin Nebraska og Oklahoma hafi höfðað mál gegn nágrönnum sínum í Colorado. Þeir segja að maríjúana sem keypt sé með löglegum hætti í Colorado streymi inn til sín.

Frá því að maríjúana var gert löglegt í Colorado hefur hefur einstaklingum sem mega kaupa kannabis í lækningaskyni fjölgað. Það fólk sleppur við að borga þá skatta sem aðrir þurfa að borga og fá efnin ódýrari.

Embættismenn beggja ríkja segja að nauðsynlegt sé að gera meira til að fá fólk til að fara frekar löglegu leiðina. Þá er unnið að því að draga úr umfangi sölu maríjúana í lækningaskyni. Þar að auki er verið að skoða hvernig hægt sé að vinna á ólöglegri sölu.

„Hvernig er hægt að hafa tvö samhliða kerfi, þar sem öðru er stýrt af lögum, borgar skatta og spilar eftir reglum. Á meðan gera aðilar í hinu kerfinu ekkert af þessu,“ hefur AP eftir Rick Garza, frá áfengissölu stjórn Washington, sem heldur utan um sölu maríjúana.

Skatttekjur af iðnaðinum hafa einnig verið minni en vonir stóðu til. Í Colorado voru skatttekjur vegna sölu maríjúana um 60 milljónir dala í fyrra, sem samsvarar rúmu sjö og hálfum milljarði. Í Washington hafa voru tekjurnar um 15 milljónir dala á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×