Innlent

Vilja öruggari gönguleið yfir Miklubraut

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/vilhelm
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu á borgarstjórnarfundi í dag fram tillögu um öruggari göngutengsl yfir Miklubraut á kaflanum milli Kringlumýrarbrautar og Lönguhlíðar. Borgarstjórn samþykkti að fela umhverfis- og skipulagsráði að kanna tiltæka kosti varðandi uppsetningu göngubrúar eða undirganga.

Í tillögu Sjálfstæðisflokksins segir að um sé að ræða einn hættulegasta kafla fyrir óvarða vegfarendur í borginni. Foreldrar hafi um árabil barist fyrir að umferðaröryggi verði aukið og að þeir hafi sent borgarstjórn áskorun um göngubrú eða undirgöng með fjögur hundruð undirskriftum.

Lagt er til að metin verði æskileg staðsetning slíkra mannvirkja með tilliti til gönguleiða og gönguflæðis barna og ungmenna yfir Miklubraut. Þá verði umhverfis- og skipulagssviði jafnframt falið að taka upp viðræður við Vegagerð ríkisins um þátttöku í verkefninu, þar sem um sé að ræða stofnbraut í þéttbýli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×