Innlent

Biggi lögga segir „no comment“

Jakob Bjarnar skrifar
Biggi lögga, sem hefur komið fram á samfélagsmiðlum lögreglunnar, kýs að tjá sig ekki að þessu sinni.
Biggi lögga, sem hefur komið fram á samfélagsmiðlum lögreglunnar, kýs að tjá sig ekki að þessu sinni.
Biggi lögga segir „no comment“ um það þegar lögreglan henti fagnandi landsliðsmönnum og stuðningsmönnum út af veitingastað klukkan eitt í nótt – með vísan til opnunartíma.

Eins og fram hefur komið á Vísi þá var lögreglan ströng á reglum um opnun veitingastaða í gær, þrátt fyrir sögulega stund í knattspyrnusögunni; þegar Ísland komst áfram á EM eftir jafntefli við Kasaka á Laugardalsvelli; og hún lokaði og vísaði gestum staðarins, landsliðsmönnum og stuðningsmönnum út. Í fréttinni getur að líta myndbandsbrot af fögnuðinum.

Fótboltavefurinn fotbolti.net greindi frá málinu í morgun og má þar glögglega lesa á milli lína að blaðamanni er heitt í hamsi vegna þessa meinta takleysis og reglufestu lögreglunnar og er vísað til þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefði gefið til kynna að það yrði opið í nótt, hvað sem reglum líður. Og víða á samfélagsmiðlum má sjá menn velta þessari stífni fyrir sér.

Birgir Örn Guðjónsson, betur þekktur sem Biggi lögga, hefur komið fram sem andlit lögreglunnar á samfélagsmiðlum hennar, með jákvæðni og það fyrir augum að vera í góðu sambandi við almenning. Vísir hafði samband við Bigga og spurði hvort rétt væri, sem fleygt er, að hann hafi farið fremstur í flokki lögregluliðs við að varpa landsliðsmönnunum á dyr?

„Heyrðu, nei. Það er sannarlega ekki rétt. Ég var bara slakur heima hjá mér í fríi í gær,“ segir Biggi við opinni fyrirspurn Vísis á Facebookvegg sínum. Og bætir broskalli við.

En, hvað finnst þér eiginlega um þetta?

„Ég held að ég segi í þetta sinn, no comment,“ svarar Biggi, léttur í bragði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×