Innlent

Starfsumhverfi sprotafyrirtækja standist alþjóðlegan samanburð

Sæunn Gísladóttir skrifar
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, vill að starfsumhverfi sprotafyrirtækja á Íslandi standist alþjóðlegan samanburð.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, vill að starfsumhverfi sprotafyrirtækja á Íslandi standist alþjóðlegan samanburð. Fréttablaðið/GVA
Í nýrri aðgerðaáætlun í þágu sprotafyrirtækja, undir heitinu Frumkvæði og framfarir, er lagt til að innleiða skattalega hvata vegna ráðningar erlendra sérfræðinga, mögulega með skattaafslætti af tekjuskatti.

Þetta kom fram í kynningu Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, á fimmtudag. Áætlunin miðar að því að starfsumhverfi fyrir frumkvöðla, sprotafyrirtæki og nýsköpunarstarf á Íslandi standist allan alþjóðlegan samanburð.

Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu tíðkast skattalegir hvatar vegna ráðningar erlendra sérfræðinga annars staðar á Norðurlöndunum. Því væri auðvelt að vinna samanburð á leiðum sem farnar hafa verið til að laða sérhæft starfsfólk til íslenskra fyrirtækja.

Útfærsla liggur ekki fyrir en algengt er að um tímabundinn afslátt af tekjuskatti sé að ræða. Þá verður skattlagning kaupréttar og umbreytanlegra skuldabréfa endurskoðuð. Breytingum á skattaumhverfi á að vera lokið ekki síðar en á vorþingi 2017.

Kannaðir verða kostir þess að bjóða upp á að hefja rekstur frumkvöðlafyrirtækja með stofnun frumkvöðlafélaga eins og þekkist meðal annars í Danmörku. Um væri að ræða félag með takmarkaðri ábyrgð félagsmanna á skuldbindingum þess, þar sem ekki þyrfti að leggja til stofnfé í upphafi og ekki þyrfti að greiða skráningargjald. Þetta myndi ekki hafa áhrif á eignarrétt á viðkomandi félagi.

Óheimilt yrði að greiða félagsmönnum arð úr félaginu þar til því hefði verið lagt til stofnfé. Félagið yrði þó hægt að skrá á virðisauka- og launagreiðendaskrá. Með einföldum hætti yrði hægt að breyta slíku félagi í einkahlutafélag. Tillögum um málið verður skilað fyrir 1. júní næstkomandi.

Unnið hefur verið að frumvarpi til að einfalda skil ársreikninga svo draga megi úr umsýslukostnaði lítilla og meðalstórra félaga og bæta viðskiptaumhverfi þeirra. Lagt verður til að svokölluðum örfélögum, félögum með takmarkaða ábyrgð sem við uppgjörsdag fara ekki fram úr að minnsta kosti tveimur af eftirfarandi þremur viðmiðum; þrjú ársverk, 20 milljónir í eignir og 40 milljónir í hreina veltu, verði gert kleift að nýta skattframtal til ársreikningaskila.

Í reynd liggur hluti þeirra upplýsinga sem nú er farið fram á að birtist í ársreikningi lítilla félaga þegar fyrir á skattframtali viðkomandi félags og er því einfalt að sækja þær þangað. Kjósi forsvarsmenn fyrirtækis að nýta sér þennan möguleika þurfa þeir einungis að haka við einn reit á skattframtalinu og kerfið sér um að útbúa sjálfvirkt ársreikning. Áætlað er að þetta verði komið til framkvæmda vegna reikningsársins 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×