Innlent

Ökumenn finna fyrir vetrinum: Hálkublettir víða um land

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ökumenn gætu verið áminntir í dag um það að veturinn sé á næsta leyti enda gætir víða hálku.
Ökumenn gætu verið áminntir í dag um það að veturinn sé á næsta leyti enda gætir víða hálku. Vísir/Vilhelm
Vetur konungur boðar komu sína og hefur í raun nú þegar látið á sér kræla víðsvegar um land í formi hálku og hálkubletta. Hálka er á Holtavörðuheiði og hálkublettir á Bröttubrekku en vegir á Vesturlandi eru annars greiðfærir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni. Því skulu þeir sem fara akandi um landið fara varlega.

Þá er hálka eða hálkublettir víða á fjallvegum á Vestfjörðum, hálkublettir eru á Vatnsskarði en snjóþekja  á Öxnadalsheiði og við Mývatn og áfram austur á öræfin líkt og segir í tilkynningunni. Eins er snjóþekja  á Dettifossvegi og í Bárðadal.

„Hálkublettir eru á Möðrudalsöræfum en hálka Háreksstaðaleið, Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði og á Oddskarði.  Þæfingsfærð er á Hellisheiði eystri. Hálkublettir eru á Breiðdalsheiði en snjóþekja á Öxi.“

Framkvæmdir verða á Reykjanesbraut við hringtorg. Vísir/Pjetur.
Vegagerðin vekur einnig athygli á því að hálendisvegir séu víða orðnir ófærir. „Skemmdir hafa orðið á Eyjafjarðarleið (F821) og á austasta hluta Fjallabaksleiðar nyrðri (F208) og eru þeir vegir því lokaðir.“

Röskun í höfuðborginni vegna vegaframkvæmda

Í höfuðborginni eru eftirfarandi götur og svæði lokuð en það ekki vegna veðurs heldur vegaframkvæmda. „Vegna framkvæmda við hringtorg á Reykjanesbraut er lokað fyrir umferð um Stekk. Umferðarhraði hefur verið lækkaður í 50 km/klst á vinnusvæðinu. Vegfarendum er bent á að nota mislæg gatnamót í Innri-Njarðvík eða hringtorg við Grænás.  Áætlað er að framkvæmdum ljúki í nóvember.

Unnið er við breikkun og lagfæringar á Álftanesvegi um Engidal milli Hafnarfjarðarvegar og Prýðihverfis og má búast við nokkurri röskun á umferð á meðan.

Vegna framkvæmda við undirgöng undir Vesturlandsveg á móts við Aðaltún í Mosfellsbæ, er hraði er tekinn niður í 50 km/klst. Áætlað er að framkvæmdir standi fram í nóvember.      

Vegfarendur eru beðnir velvirðingar á óþægindum sem vinna við vegsvæði veldur og eru hvattir til að fylgja þeim merkingum og leiðbeiningum sem uppi eru hverju sinni,“ segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×