Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í fótbolta og leikmaður Swansea í ensku úrvalsdeildinni, vonast til að skora fleiri mörk fyrir liðið nú þegar hann er loks kominn á blað á þessari leiktíð.
Gylfi Þór fór á kostum með Swansea á síðasta tímabili þegar hann skoraði sjö mörk og gaf tíu stoðsendingar. Fyrsta markið lét bíða eftir sér þetta tímabilið, en hann skoraði sitt fyrsta úr vítaspyrnu í 3-1 tapi gegn Southampton um síðustu helgi.
„Auðvitað er gott að komast á blað. Vonandi get ég nú komist í gang og skorað aðeins meira,“ segir Gylfi Þór í viðtali við South Wales Evening Post.
„Pressunni er aðeins létt af mér þannig nú fara mörkin að koma. En við erum í þessu til að vinna leiki og fá þrjú stig. Það skiptir engu hvort ég skora eða ekki, ég vil fá þrjú stig.“
Swansea er ekki búið að vinna í þremur leikjum í röð í ensku úrvalsdeildinni, en það tapaði fyrir Southampton, 3-1, um síðustu helgi.
„Gleðin yfir að skora minnkar þegar frammistaðan er eins og gegn Southampton,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson.
