Innlent

Stórt skarð ef lífeindafræðingar hætta

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Stórt skarð myndast í hóp lífeindafræðinga á Landspítalanum þegar tuttugu og sex þeirra hætta um næstu mánaðamót. Formaður Félags lífeindafræðinga segir flesta vera ungt fólk sem geti ekki séð fyrir sér á þeim launum sem í boði eru.

Lífeindafræðingarnir sögðu upp störfum á Landspítalanum í sumar eftir að lög voru sett á verkfallsaðgerðir þeirra.  Alls starfa 159 lífeindafræðingar á spítalanum og eru þeir sem sagt hafa upp um ríflega sextán prósent þeirra. Enginn hefur dregið uppsögn sína til baka nú þegar þrjár vikur eru í að þeir eiga að hætta á spítalanum.

Gyða Hrönn Einarsdóttir, formaður Félags lífeindafræðinga.Vísir/Vilhelm
Gyða Hrönn Einarsdóttir, formaður Félags lífeindafræðinga, er ein þeirra sem sagt hafa upp. Hún segir úrskurð Gerðardóms ekki duga til að starfsmennirnir vilji draga uppsagnir sínar til baka. Úrskurðurinn taki til að mynda ekki á vaktakerfum starfsmanna sem sumir séu ósáttir við og þá séu aðrir ósáttir við hvernig raðað er í launaflokka.

„Þeir sjá ekki framtíð í kerfinu eins og það er núna,“ segir Gyða. „Þetta unga fólk sem er að koma sér upp íbúð og er með lítil börn, þau geta ekki séð fyrir sér eins og staðan er núna.“

Meðalaldur þeirra lífeindafræðinga sem starfa hjá ríkinu er 56 ár. Þeir 26 lífeindafræðingar sem sagt hafa upp eru hins vegar töluvert yngri. Stór hluti þeirra er undir fertugu. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum er unnið að því að reyna að koma til móts við óskir starfsmannanna. Gyða telur að uppsagnirnar komi til með að hafa mikil áhrif á starfsemi spítalans.

„Við erum nú þegar að berjast við nýliðunarvanda,“ segir hún. „Það hefur gengið illa að fá nýútskrifaða inn á Landspítalann, þannig að ef þessi hópur fer skilur það líka eftir sig stórt skarð. Það eru deildir þar sem um helmingur lífeindafræðinga hefur sagt upp og vissulega hlýtur það að hafa mjög mikil áhrif.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×