Innlent

Kynning á byssum fyrirhuguð en fjölmiðlar voru fyrri til

Glock 17 - vopn - skammbyssa - sérsveit
Glock 17 - vopn - skammbyssa - sérsveit
Fyrir viku var vopnavæðing lögreglu í bílum kynnt fyrir yfirstjórn lögreglunnar. Í kjölfarið átti að kynna fyrirætlunina fyrir starfsmönnum, sveitarstjórnum sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þjónar ásamt fjölmiðlum.

„Síðan fengum við fyrirspurn Fréttablaðinu morguninn eftir þannig að kynningarplanið fór úr böndunum,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn en skammbyssur verða settar í læst öryggishólf í sex lögreglubíla um miðjan mánuðinn.

Gagnrýnt er að fyrirætlunin var ekki kynnt fyrir almenningi og þingi. Ásgeir bendir á að samkvæmt reglum ráðherra um meðferð valdbeitingartækja og vopna hafi lögreglustjórar heimild til að ákveða þetta sjálfir.

„Það hafa nokkrir lögreglustjórar á landinu nýtt sér þessa heimild í nokkur ár. Það hefur verið gert án athugasemda eða kynningar,“ segir Ásgeir.

Breytingin kemur í kjölfar þriggja ára þjálfunaráætlunar lögreglunnar. Sú áætlun hófst eftir útgáfu skýrslu innanríkisráðherra um stöðu lögreglunnar árið 2012 sem gerð var eftir skotárásina í Útey í Noregi. Í skýrslunni segir að viðbúnaðargeta lögreglu sé óviðunandi varðandi fyrstu viðbrögð og vegna öryggis ríkisins.

„Lögreglunni var gert að taka sig í gegn í þessum málum. Alþingi kom að þessu öllu saman og úthlutaði fjármagni fyrir þjálfun og búnaði,“ segir Ásgeir og bendir á að breytingin sé ekki stórvægileg. Í stað þess að byssur séu geymdar á lögreglustöðinni verði þær geymdar í bílum

„Lögreglumenn munu ekki hafa óheftan aðgang að byssum og meta sjálfir notkun. Það er eingöngu verið að stytta tímann sem það tekur að vopnast ef yfirmenn ákveða það. Skotárásir í nágrannalöndunum hafa sýnt okkur hve mikilvægt er að viðbragðið sé gott.“

Ásgeir bendir á að samkvæmt könnun sem var gerð meðal lögreglumanna árið 2012 hafi 83,5 prósent lögreglumanna viljað hafa skotvopn í læstum hirslum í bílum og 70 prósent vilji alls ekki ganga með vopn á sér.

„Við verðum ánægð ef við þurfum ekki að endurskoða neitt af þessu og getum látið staðar numið með þessa sex bíla. En við skulum ekki gleyma því að borgarar treysta á vernd lögreglu og vilja ekki að hún sé vanbúin í erfiðum aðstæðum sem leiðir til þess að hún þurfi að fara af vettvangi.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×