Innlent

Hraðinn vandamálið frekar heldur en öryggisbúnaðurinn

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/guðbrandur
Níu vélsleðaslys hafa orðið frá því í nóvember. Þetta eru reyndir menn jafnt sem óreyndir. Vandamálið er kannski ekki öryggisbúnaðurinn heldur hraðinn sem menn eru að keyra á og oft eru menn að keyra við aðstæður sem eru mjög erfiðar. Þetta segir Guðbrandur Örn Arnarson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu í viðtali í þættinum Reykjavík síðdegis.

Hann segir álagið á björgunarsveitir undanfarin misseri hafa aukist mikið, en það sé í beinu samhengi við aukningu ferðamanna, bæði erlendra og innlendra. Þá er fólk farið að stunda jaðarsport í auknum mæli sem eykur vinnu björgunarsveita til muna.

„Það er kannski ekki skortur á öryggisbúnaði hjá þeim sem eru vanir eða þeim sem eru í mesta jaðarsportinu. Vandinn er að þeir sem eru að ferðast minna telja sig ekki þurfa þennan búnað því þeir eru ekki að gera það sama og þeir sem eru í jaðarsportinu, en þar er þörfin alveg jafn mikil,“ segir Guðbrandur.

Guðbrandur segir tækin verða sífellt öflugri og því sé mikil þörf á að fólk auki þekkingu sína og reynslu áður en það fer út í þessar miklu ferðir.

„Sleðarnir hafa stækkað og eru þeir orðnir öflugri í dag en þeir hafa nokkurn tímann verið.“

Hann segir þó meira spila inn í en einungis hraðann. Það sé óblíð náttúra Íslands, henni fylgi alltaf ákveðin hætta og því þurfi að fara varlega.  

Guðbrandur hvetur ferðafólk til þess að nýta sér upplýsingar sem finna má á vefsíðunni safetravel.is og hjá Landssambandi  íslenskra vélsleðamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×