Innlent

Tilbúinn að skoða málamiðlanir vegna ESB

Heimir Már Pétursson skrifar
VÍSIR/PJETUR
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segist opin fyrir málamiðlun sem kunni að verða til í utanríkismálanefnd um afturköllun aðildarumsóknar að Evrópusambandinu. Formaður Samfylkingarinnar segir ekkert samkomulag verða á meðan hótun um slit viðræðna standi óbreytt.

Flest bendir til að fyrri umræðu um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra ljúki á Alþingi fyrir helgi. En þar með er ekki öll sagan sögð því eftir á að ræða tillögur Vinstri grænna og Pírata um sama efni og ekkert samkomulag um að senda þær umræðulaust til utanríkismálanefndar. En til að ná málamiðlun þyrfti helst að ræða tillögurnar allar samtímis í nefndinni.

Þá þarf Alþingi t.d. að fá lög um frestn gildistöku náttúruverndarlaga samþykkt fyrir mánaðamót, annars taka þau gildi og von er á stórum frumvörpum varðandi skuldaleiðréttingu heimilanna, sem stjórnarflokkarnir vilja væntanlega frið til að ræða á þinginu.

Utanríkisráðherra segir eðlilegt að utanríkismálanefnd taki sér þann tíma sem þarf til að ræða tillögurnar.

Ert þú opinn fyrir því að taka samkomulagsniðurstöðu sem yrði til inni í utanríkismálanefnd og fæli í sér að aðildarumsóknin yrði ekki kölluð til baka?

„Ég mun hlusta á allt sem kemur út úr þessari nefnd. Ríkisstjórnin hefur talað alveg skýrt með að hún ætlar ekki ganga í Evrópusambandið og vill draga þessa umsókn til baka,“ segir Gunnar Bragi.

Ríkisstjórnin sé í fullum rétti að leggja slíka tillögu fram.

„Ef nefndin kemst að annarri niðurstöðu eða kemur fram með annað útspil þá hlustum við á það. Ég ætla ekki að gefa mér neitt fyrirfram í því, segja hvað ég er tilbúinn að samþykkja og hvað ekki. Ég hlusta bara á það sem kemur út úr nefndinni,“ segir utanríkisráðherra.

Stjórnarandstaðan vill helst fá samkomulag um afgreiðslu mála áður en þau fara til nefndar.

„Það skiptir okkur miklu máli að hótunin um að slíta þessu ferli án aðkomu þjóðarinnar verði tekin burt af borðinu. Og ef menn meina eitthvað með því að vilja ræða mál í nefnd þá hljóta þeir að vera tilbúnir að taka þá hótun og þá afarkosti af borðinu,“ segir Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar.

Utanríkisráðherra vill ekki gefa neitt slíkt loforð, en hefur þó sagt tillögu Vinstri grænna sem gerir ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir lok kjörtímabilsins þess virði að skoða hana.

„Þannig að ég segi, skoðum með opnum huga hvað kemur út úr utanríkismálanefnd og þá skulum við taka einhverja umræðu um framhaldið, ef þarf að semja um það er ég opinn fyrir því. Sjáum bara hvað kemur þarna út,“ segir utanríkisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×