Innlent

„Ömurlegt að vera svona upp á aðra komin“

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Aðsend/Pjetur
„Það er hreint út sagt ömurlegt að vera svona upp á aðra komin. Að þurfa svo að takast á við peningaáhyggjur ofan á allt annað sem að maður stendur frammi fyrir er náttúrulega bara skammarlegt,“ segir Guðný Linda Óladóttir í tölvupósti sem hún sendi til forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra í fyrradag og deildi í framhaldinu á Facebook.

Guðný er 42 ára öryrki, með ónýt lungu og bíður eftir því að komast í lungnaígræðslu í Gautaborg. Þann 1. mars síðastliðinn fékk hún 26.081 krónu frá Tryggingastofnun, sem er einungis brot af því sem hún er vön að fá. Ástæða þess að Guðný fékk svona lítið er að síðastliðna tólf mánuði hefur hún verið meira en 180 daga á sjúkrastofnun.

Þar af 20 af síðustu 30 dögum.

„Þetta er mjög ósanngjörn regla og hún er ómannúðleg,“ segir Guðný í samtali við Vísi. „Henni þarf að breyta. Með póstinum vildi ég vekja athygli á þessu og þá ekkert endilega fyrir mig persónulega. Heldur hve ósanngjörn reglan sé yfir höfuð. Það þarf einhverja umfjöllun til að eitthvað verði gert í þessu. Fólk veit af þessu en það er ekkert gert.“

Í janúar var Guðný kölluð til Gautaborgar til að fá ný lungu, en þegar hún kom þangað voru lungun ónýt svo hún þurfti að snúa aftur til Íslands. „Nú er svo komið að ég get ekki verið heima hjá mér. Ég er 100% súrefnisháð og get ekki gengið tvö skref jafnvel með súrefnið á fullum krafti og þarf því að vera keyrð um allt í hjólastól.“

Hún segist hafa komið á Landspítalann þann 3. febrúar og verið aðframkomin. Læknar tóku þá ákvörðun um að best væri að hafa hana á spítalanum þar til kallið kæmi frá Gautaborg. „Engin veit hvenær það verður. Gæti orðið á eftir en gæti líka orðið eftir 5 mánuði,“ skrifar Guðný.

En nú er hún búin að missa bæturnar frá TR. „Rökin fyrir því eru að ríkið sé að halda mér uppi og ég þurfi ekki á þeim að halda. En það vill svo til að þótt að ég sé hér lasin að bíða að þá á ég fjölskyldu, ég á barn, ég á heimili og ég á reikninga sem þarf að borga.“

„Það getur vel verið að ríkið sé að halda mér uppi á húsaskjóli og mat á meðan á biðinni stendur en það þarf samt sem áður að borga af íbúðinni minni, borga reikninga og sjá barninu mínu farborða á meðan ég er hér,“ skrifar Guðný.

Guðný segist vera nú í aðstöðu sem hún óski engum. Hún myndi frekar vilja vera að vinna og taka þátt í lífinu heldur en að vera negld niður við stól á Borgarspítalanum, þar sem hún er núna.

„Það er hreint út sagt ömurlegt að vera svona upp á aðra komin. Að þurfa svo að takast á við peningaáhyggjur ofan á allt annað sem að maður stendur frammi fyrir er náttúrlega bara skammarlegt.“

Hún segir þá staðreynd að þeir, sem séu svo óheppnir að verða veikir og þurfa á sjúkrahúsdvöl að halda til lengri tíma, hljóti að vera brot á stjórnarákvörðun mannréttinda. Að þessu þurfi að breyta og að strax.

„Það er í ykkar höndum þarna niður á alþingi að breyta þessu ásamt kjörum öryrkja almennt. Með von um svör og fljót viðbrögð í þinginu,“ skrifar Guðný að lokum í bréfi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×