Aníta kom í mark á tímanum 2:03,41 sem er rétt tæpum þremur sekúndum frá Íslandsmeti hennar, en hún þurfti lítið sem ekkert að hafa fyrir sigrinum. Hún er komin áfram í undanúrslitin sem fara fram á morgun.
Hlaupadrottningin unga var þriðja í röðinni eftir fyrri hringinn en gaf í eftir 550 metra og var komin í forystu eftir 600 metra.
Þá áttu andstæðingar hennar ekki lengur mögulega og skokkaði hún rólega í mark síðustu 100 metrana. Fjórir keppendur á mótinu eiga betri tíma en Aníta þannig hún ætti að komast í úrslitin.
Aníta er örugg áfram í undanúrslitin þó tíminn hafi ekki verið góður þar sem efstu þrír í hverjum riðli komast áfram.
Undanúrslitin fara fram á sama tíma annað kvöld og úrslitahlaupið aðfaranótt föstudags.
Keppt er á hinum sögufræga Hayward-velli í Eugene í Oregonríki í Bandaríkjunum.
Uppfært 19.52: Tími Anítu var sá besti í undanrásunum. MargaretWambui frá Keníu náði næstbesta tímanum sem var 2:04,24.
