Innlent

Sjómenn fá ekki sex tíma hvíld

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Sjómenn hafa verið án kjarasamninga í fjögur ár og útvegsmönnum hefur þótt lítið tilefni til þess að setjast að samningaborðinu segir Valmundur Valmundsson.
Sjómenn hafa verið án kjarasamninga í fjögur ár og útvegsmönnum hefur þótt lítið tilefni til þess að setjast að samningaborðinu segir Valmundur Valmundsson. Fréttablaðið/Ernir
„Vinnuálagið er orðið óeðlilega mikið,“ segir nýr formaður Sjómannasambands Íslands, Valmundur Valmundsson. Óviðunandi aðstæður sjómanna voru ræddar á þingi Sjómannasambands Íslands sem sett var á fimmtudag, þar á meðal ónóg hvíld sjómanna.

„Hvíldarákvæði kjarasamninga eru brotin, við fréttum af því oftar en áður að sjómenn fái ekki þá sex tíma samfleyttu hvíld sem þeim er tryggð samkvæmt lögum,“ segir Valmundur.

Hann segir mannfæð um að kenna og hefur miklar áhyggjur af aukinni slysahættu. „Það er okkar mat að slysahætta eykst og það er mikið áhyggjuefni. Ef hvíldina vantar þá býður það hættunni heim.“

Valmundur tekur við af Sævari Gunnarssyni sem hefur verið formaður Sjómannasambandsins í 20 ár. Hann stundaði sjómennsku í 33 ár en lét af henni fyrir fjórum árum. Áður var Valmundur formaður Sjómannafélagsins Jötuns í Vestmannaeyjum.

Hann segir sjómenn langþreytta á aðstæðum sínum, þá helst vinnuálagi og fámenni á sumum fiskiskipum. Þeir hafi verið án kjarasamnings í fjögur ár. „Það hefur bitnað á okkur að enn hefur ekki verið lagt fram nýtt frumvarp um stjórn fiskveiða. Það hefur ekki verið vilji til að ræða við okkur um kjör um langa hríð vegna breytinga í útgerðinni. Það er fráleitt því það er um margt annað að semja,“ segir Valmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×