Innlent

Deilt um launahækkun hafnarstjóra

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Meirihlutinn í bæjarstjórn Ölfus er ánægður með störf og hugmyndir hafnarstjórans. Myndin er frá Þorlákshöfn.
Meirihlutinn í bæjarstjórn Ölfus er ánægður með störf og hugmyndir hafnarstjórans. Myndin er frá Þorlákshöfn. Fréttablaðið/Rósa
„Fulltrúar D-lista lýsa furðu yfir þeirri stefnubreytingu sem orðið hefur í launamálum forstöðumanna sveitarfélagsins,“ segir í bókun sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Ölfuss vegna ákvörðunar meirihluta Framsóknarflokks um að hækka laun hafnarstjóra um þriðjung.

Hafnarstjórinn sem ráðinn var í desember í fyrra hafði áður 520 þúsund krónur í mánaðarlaun og fékk aksturspeninga fyrir 700 kílómetra á mánuði. Það svarar samtals til um 600 þúsund króna. Launin hans voru hækkuð í 700 þúsund krónur og greitt er fyrir 900 kílómetra akstur. Saman gerir þetta um 800 þúsund krónur á mánuði.

„Er það stefna framsóknarmanna að taka til baka þá launaskerðingu sem aðrir forstöðumenn sveitarfélagsins urðu fyrir á síðasta kjörtímabili?“ spurðu sjálfstæðismenn.

„Reynsla af störfum þessa nýja hafnarstjóra hefur verið með afbrigðum góð, rekstur hafnarinnar hefur tekið stakkaskiptum til jákvæðari vegar og framtíðarhugmyndafræði um rekstur hafnarinnar er gerbreytt,“ segir Gunnsteinn R. Ómarsson bæjarstjóri. „Á fyrstu mánuðum í starfi lagði hafnarstjóri fram hugmynd um endurbætur á Þorlákshöfn sem hlotið hefur gríðarmikinn hljómgrunn meðal sveitarstjórnarmanna á Suðurlandi og ráðamanna þjóðarinnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×