Innlent

Kjalnesingar hafna risavöxnum jóga

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Styttan af Chinmoy Bronsstyttan í landi Esjubergs átti að vera þrettán metrar á hæð.
Styttan af Chinmoy Bronsstyttan í landi Esjubergs átti að vera þrettán metrar á hæð. Mynd/Sri Chimnoy-miðstöðin
„Slík stærð yrði afar umdeilanleg á þessum forna sögustað og myndi vart skapa frið um staðinn,“ segir Hverfisráð Kjalarness sem leggst gegn því að Sri Chinmoy-miðstöðin fái að reisa þrettán metra háa styttu af Chinmoy við Esjuberg. Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur hafnaði styttunni einnig í gær.

Styttan á að verða manngengt listaverk tileinkað friði. Hún er hönnuð af Englendingnum Kaivaliya Torpy sem mun hafa gert margar styttur af Chinmoy víða um lönd. Indverski gúrúinn og kraftlyftingamaðurinn Chinmoy lést árið 2007.

Vin í eyðimörkinni sem á ekki a trufla neinn

„Þetta á að verða vin í eyðimörkinni frá daglegu stressi. Fólk mun fá aðgang þarna inn en alls ekki þannig að það trufli nágrannana,“ sagði Marteinn Arnar Marteinsson hjá Sri Chinmoy-miðstöðinni í samtali við Fréttablaðið í maí. Einnig kom fram hjá Marteini að meðlimir Sri Chinmoy-miðstöðvarinnar ætluðu að planta trjám og útbúa tjarnir á lóðinni sem kaupa átti undir styttuna.

Uppdráttur af Chimnoy-styttunni sýnir stærð hennar ágætlega. Talsmaður Sri Chinmoy-miðstöðvarinnar segir styttuna myndu stuðla að friði. Kjalnesingar eru á öðru máli.
Garður væri í lagi en styttan er of stór

Hverfisráð Kjalarness segist styðja gerð náttúrulegs garðs og plöntun trjáa í landi Esjubergs og hugmyndir um opið útivistarsvæði.

„Hverfisráðið getur hins vegar ekki stutt það að svona stór minnisvarði/stytta af Sri Chinmoy sé reist á staðnum,“ segir hverfisráðið og vísar í fyrri bókun sína þar sem fram kemur að Esjubergs sé getið í fornbókmenntum og að þar sé talið að fyrsta kirkja á Íslandi hafi staðið.

Eru sjálfir með hugmynd um útialtari

„Í mörg ár hafa Kjalnesingar rætt um hvernig best sé að vekja athygli á sögu staðarins,“ segir hverfisráðið sem kveður sóknarnefnd Brautarholtskirkju og Sögufélagið Steina hafa staðið fyrir útimessum á Esjubergi undanfarin sumur.

„Hugmyndir eru uppi meðal Kjalnesinga um að setja þar upp útialtari. Í þessu ljósi er bent á að nauðsynlegt er að taka til vandlegrar skoðunar hvaða mannvirki, byggingar eða listaverk munu setja svip á staðinn, sér í lagi ef þau koma til með að verða jafn áberandi í landslaginu og umrætt listaverk virðist munu vera,“ segir hverfisráðið og bætir við að Chinmoy-styttan yrði mjög áberandi í landslaginu undir Esju og skera sig úr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×