Lífið

Tíu ára trommari í FÍH

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Kiddi, trommukennarinn minn, átti þetta sett áður og mér finnst það flott og grúví,“ segir Þórarinn Þeyr.
"Kiddi, trommukennarinn minn, átti þetta sett áður og mér finnst það flott og grúví,“ segir Þórarinn Þeyr. fréttablaðið/Valli
„Á inntökuprófinu í FÍH spilaði ég fyrir þrjá kennara. Ég tók stef af nótum sem þeir höfðu sent og líka nokkur lög, til dæmis Immigrant Song, Moby Dick og Fool in the Rain með Led Zeppelin en trommarinn í henni, John Bonham, er uppáhaldstrommarinn minn,“ segir Þórarinn Þeyr Rúnarsson, tíu ára.

Hann lemur húðir í hljómsveitinni Meistarar dauðans við góðan orðstír og er yngsti nemandinn í FÍH á þessum vetri.

Aldurstakmark í FÍH er fimmtán ár og Þórarinn Þeyr segir ýmislegt fylgja því að vera langyngstur.

„Ég vildi læra tónfræði og reyna að komast í sama skóla og Ásþór Loki bróðir minn því við spilum alltaf saman og er voða ánægður með að það tókst. En það verður erfitt í tónfræðinni því þetta er harður skóli. Sumum unglingum og fullorðnum finnst líka kannski skrítið að spila með krakka en ég ætla að passa að trufla engan og hlusta á alla bara eins og á hljómsveitaræfingum.“

Þórarinn Þeyr fékk fyrsta trommusettið fimm ára, þangað til sló hann á potta og hvað sem var.

„Ég hlustaði mikið á Trassana, hljómsveit sem pabbi var í, og Metallicu og vildi alltaf hlusta á þau lög sem voru með flottustu trommutöktunum. Við Ásþór Loki bróðir minn sem nú er 15 ára og spilar á gítar æfðum mikið í stofunni heima. Pabbi kenndi okkur til dæmis Lóa, Lóa eftir Megas en við heimtuðum að læra Master of Puppets með Metallica,“ segir Þórarinn.

Hann kveðst hafa lært mest af Kristni Snæ Agnarssyni trommukennara.

„Kiddi kenndi mér tækni, takta og trommubreik en líka að hlusta á hina og hvað það er mikilvægt að halda jöfnum takti og geta spilað bæði laust og fast.“



En skyldi Þórarinn ekki vera að gera alla vitlausa í hverfinu þar sem hann býr?! „Nei. Eða jú, svolítið. Við æfum í bílskúr og erum búnir að hljóðeinangra hann en það stoppar samt ekki allt hljóð. Við erum með reglur um að spila ekki á trommurnar eftir klukkan 18 nema stundum til 19 um helgar. Svo reyni ég að spila ekki fast.“

Trommusláttur er ekki eina áhugamál Þórarins Þeys. Hann hefur æft júdó frá fjögurra ára aldri og er bæði Íslandsmeistari og Bandaríkjameistari í sínum flokki. Svo er hann að skrifa bók.



Hann kveðst líka spila oft á gítar og mandólín heima og stundum píanó þegar hann komist í það. „Mér finnst þetta allt gaman,“ segir hann. „Skemmtilegustu lögin sem ég kann á gítarinn eru Out on the Tiles og Ramble On með Led Zeppelin.“

Meistarar dauðans var stofnuð árið 2011 af þeim bræðrum Ásþóri á gítar og Þórarni Þey á trommum ásamt Alberti Elíasi Arasyni á bassa. Þeir hafa spilað á mörgum tónleikum, síðast á Óðinstorgi á Menningarnótt og þar áður á góðgerðartónleikum á Gauki á Stöng þar sem safnað var fyrir barnahjálp á Gasa. Næsta gigg er í Hörpunni á Stóra hvelli, minningartónleikum um John Bonham, trommara í Led Zeppelin. Þeir tónleikar verða til styrktar rannsóknum á sjúkdómnum MND.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.