Lífið

Taktfastir trommutöfrar í Hörpu

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Pétur Grétarsson  listrænn stjórnandi Jazzhátíðar Reykjavíkur lofar magnaðri hátíð.
Pétur Grétarsson listrænn stjórnandi Jazzhátíðar Reykjavíkur lofar magnaðri hátíð. Vísir/GVA
„Mér finnst þessi hátíð líta ótrúlega vel út og er geysilega ánægður með hana,“ segir Pétur Grétarsson, listrænn stjórnandi Jazzhátíðar Reykjavíkur, en hátíðin hefst í kvöld. Alveg óvart hefur hátíðin tekið á sig taktfasta mynd en nokkrir heimsþekktir trommuleikarar koma fram á hátíðinni í ár.

„Það eru þrír erlendir snillingar að koma hingað að spila, Kúbumeistarinn Pedrito Martinez, sem er einhver flottasti konguleikari sem ég hef séð í mörg ár, og djassundrin Ari Hoenig og Jim Black sem eru báðir alveg frábærir trommuleikarar,“ segir Pétur. Auk þess koma nokkrir íslenskir trommusnillingar fram á hátíðinni.

Ari Hoenig verður meðal annars með fyrirlestur í Kaldalóni klukkan 14.00 á laugardag en hann kemur fram með kvartetti Andrésar Thors á föstudagskvöldið. Jim Black spilar með sínu eigin tríói á föstudagskvöld og með hljómsveitinni Pachora á laugardagskvöld.

Jazzhátíð Reykjavíkur er haldin í 25. sinn í ár og fer fram í Hörpu. Hún býður upp á tónleika með alþjóðlegu úrvalsliði djasslistamanna auk þess að leggja ríka áherslu á tónleika með því besta sem völ er á úr íslensku tónlistarlíf.

Oftar og oftar fer þetta saman þar sem íslenskt djasstónlistarfólk starfar úti um allan heim. „Staða djassins hér á landi er mjög sterk í alþjóðlegu samhengi, við erum rík af flottu tónlistarfólki og ég lofa flottri hátíð.“

Dagskrá kvöldsins:

17.00- Undirbúningur fyrir skrúðgöngu Jazzhátíðar. Safnast saman hjá Lucky Records við Hlemm.

17.30 - Tak sax þinn og gakk! Listamenn hátíðarinnar og velunnarar ganga fylktu liði frá Lucky Records að Hörpu.

19.00 - Opnunarhátíð í Hörpuhorni. Skemmtilegar ræður og óvænt tónlistaratriði. Opnun ljósmyndasýningar Slawek Przerwa.

20.00 - Chris Speed Trio í Björtum loftum.

21.00 - Pedrito Martinez Group í Norðurljósum.

22.30 - Jam Session. Gestgjafi: Kristján Tryggvi Martinsson í Björtum loftum






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.