Lífið

Ekki í spandex á barinn

Baldvin Þormóðsson skrifar
Alexander Schepsky er hrifinn af alvöru bæjarhjólum.
Alexander Schepsky er hrifinn af alvöru bæjarhjólum. vísir/daníel
„Við áttum tveggja ára afmæli í júní og þá fékk ég þessa skemmtilegu hugmynd,“ segir Alexander Schepsky, einn eigenda reiðhjólaverslunarinnar Berlínar. Verslunin lét framleiða fyrir sig tíu bæjarhjól undir nafni Berlínar.

„Þau eru framleidd nálægt heimabæ mínum, Düsseldorf í Þýskalandi, en þetta eru klassísk götuhjól,“ segir Alexander. „Þau eru með innbyggða gíra og hjólin koma með lás og pumpu.“

Alexander lýsir hjólinu sem hinu fullkomna bæjarhjóli en núna eftir að hafa selt átta af hjólunum tíu hefur hann ákveðið að láta gera tólf stykki í viðbót.

Hjólin voru framleidd sérstaklega fyrir hjólreiðaverslunina Berlín.vísir/daníel
„Núna eru hjólastígarnir að verða svo fínir í Reykjavík sem er frábær þróun,“ segir hann. „Þá er miklu þægilegra að fara á svona klassískum hjólum með mjóum dekkjum og sitja uppréttur til að geta fylgst með umferðinni.“

Á hjólinu er líka myndarlegur bögglaberi svo að hjólreiðamaðurinn þurfi ekki að bera neitt á bakinu.

„Ég vildi prófa að koma með alvöru bæjarhjól til Reykjavíkur, það er langbest að vera bara á hjóli,“ segir Alexander.

„Við reynum að nota þetta sem farartæki frekar en íþrótt, þú vilt ekki beint fara í spandexi á barinn, það er ekki kúl.“ 

Alexander Schepsky lét hanna hið fullkomna bæjarhjól fyrir tveggja ára afmæli hjólreiðaverslunarinnar Berlín.vísir/daníel





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.