
„Þetta eru vonbrigði, hvað sumar stofnanir eru að keyra fram úr,“ segir Vigdís. „En það eru fjórir mánuðir eftir af árinu og ég ætla ekki að fella neinn dóm. Það verður bara að sjá þegar upp er staðið hvernig þetta kemur út.“
Vigdís segir að með níu mánaða uppgjöri, sem út kemur í september, muni staðan skýrast betur. Sumar stofnanir geti þá verið búnar að laga rekstur sinn ef sértekjur eiga eftir að berast þeim á seinni hluta árs.
„Annað sem kemur á óvart er að Rannsóknarnefnd Alþingis skuli fara fram úr,“ segir hún, en útgjöld nefndarinnar fyrri hluta árs námu alls 106 milljónum. „Þegar sparisjóðsskýrslan kom út var okkur sagt að það væri lokagreiðslan.“
Hún segir markmið ríkisstjórnarinnar um hallalaus fjárlög fyrir árið enn raunhæft, þó til þess þurfi sameiginlegt átak kerfisins alls.
„Við gefum ekki afslátt á því,“ segir Vigdís. „Þetta er bara eins og fyrirtæki. Innkoman verður að vera meiri á þessu ári en útgjöldin.“

Þó hefur fjárlaganefnd boðað til fundar í næstu og þar næstu viku vegna stöðunnar.
„Við erum að fara að kalla til okkar ráðuneytin þar sem er áberandi mikil framúrkeyrsla,“ segir Vigdís. Hún nefnir Landspítala, Sjúkratryggingar Íslands og Vegagerðina í þessu samhengi, en útgjöld þessara þriggja stofnana námu öll rúmlega einum og hálfum milljarði meira en nam heimild fyrri hluta árs.
Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands segir stærstan hluta framúrkeyrslu stofnunarinnar hafa verið fyrirséðan í byrjun árs.
„Almennt séð er tvennt til ráða. Það er að skerða réttindagreiðslurnar eða að hækka fjárveitinguna,“ segir Steingrímur. „Hvort heldur þú horfir á réttindin eða fjárveitinguna, þá er það ríkisstjórnarinnar að taka af skarið með það,“ segir Steingrímur.