Innlent

Kínamarkaður hikstar á sæbjúgunum

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Menn sækja ekki beinlínis gull í greipar Kínverja þótt vel hafi gengið með sæbjúgu undanfarin ár.
Menn sækja ekki beinlínis gull í greipar Kínverja þótt vel hafi gengið með sæbjúgu undanfarin ár. Mynd/Ólafur Hannesson
Útflutningur sjávarafurða til Kína hefur meira en tvöfaldast á þremur árum enda hafa fiskvinnslumenn verið duglegir að þróa nýjar vörur sem falla eins og flís við rass á Kínamarkaði.

En nú eru blikur á lofti þar eystra. Meðal annars hvað sæbjúgun varðar. Reykofninn á Grundarfirði, sem varð fyrstur til að flytja þau út, þurfti til dæmis að loka vinnslu í maí síðastliðnum vegna offramboðs á markaðnum. Verið er að koma vinnslunni af stað aftur.

Árið 2010 fluttu Reykofnsmenn út yfir þúsund tonn af sæbjúgum og um tuttugu manns unnu við veiðar og vinnslu. „Við förum okkur bara hægt núna,“ segir Kári Ólafsson framkvæmdastjóri. Hann segir ómögulegt að segja hversu mikið verði hægt að selja á þessu ári.

Einnig hefur nokkuð dregið úr þessum útflutningi hjá Hafnarnesi á Þorlákshöfn en fyrirtækið komst einnig í þúsund tonna markið á sínum tíma. En ný staða kallar á ný ráð og nú hafa Hafnarnesmenn byrjað að selja sæbjúgun reykt, en við það eykst verðmæti þeirra mikið þótt afföll verði vissulega mikil. Að sögn Hannesar Sigurðssonar hjá Hafnarnesi getur kílóverðið á þeim reyktu verið vel upp í fimm þúsund krónur en á þeim fersku jafnvel undir 200 krónum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.