Lífið

Líkamshár eru falleg

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Katrín var hæstánægð með peysuna sem vinkona hennar, fatahönnuðurinn Ýr Jóhannsdóttir, prjónaði handa henni.
Katrín var hæstánægð með peysuna sem vinkona hennar, fatahönnuðurinn Ýr Jóhannsdóttir, prjónaði handa henni. Mynd/Antonía Lárusdóttir
„Hugmyndin að peysunni kom upp í tengslum við textana okkar í hljómsveitinni Hljómsveitt, þá sérstaklega í laginu Kynþokkafull en lagið fjallar um líkamshár og að allt sé fallegt, sama hvort þú rakar þau af eða ekki,“ segir tónlistarkonan Katrín Helga Andrésdóttir, en lopapeysa sem hún klæddist á tónleikum Reykjavíkurdætra á tónlistarhátíðinni Secret Solstice um síðustu helgi hefur vakið mikla athygli.

„Það var vinkona mín, fatahönnuðurinn Ýr Jóhannsdóttir, sem prjónaði sitthvora peysuna á mig og systur mína. Þær eru í raun og veru eins nema önnur snýr öfugt.“

Katrín segir líkamshár ekki vera neitt til að skammast sín fyrir. „Það er mikil pressa á fólki að raka hár í dag. Með þessu viljum við þó heldur ekki pressa á fólk að raka sig ekki, allt er fallegt.“

Katrín er meðlimur stúlknarappsveitarinnar Reykjavíkurdætra ásamt því að spila með sinni eigin hljómsveit, Hljómsveitt. Reykjavíkurdætur skarta oft fjölbreyttum klæðnaði á sviði og því vert að spyrja hvort markmiðið sé að vekja athygli með klæðaburðinum.

„Alls ekki. Það fer bara rosalega mikið eftir giggum hvernig við klæðum okkur, stundum mæti ég í gallabuxum og hlýrabol. Þegar maður er á sviði má maður hins vegar vera eins áberandi og maður vill, þá eru engar hömlur. Ég veit hins vegar ekki hverju ég ætla að klæðast næst, ætli ég verði ekki að fara að taka við öllum tilboðum. Þeir fatahönnuðir sem eru að gera eitthvað spennandi mega endilega hafa samband,“ segir Katrín og hlær.

Reykjavíkurdætur spila á Gauknum í kvöld ásamt Grísalappalísu og hefjast tónleikarnir kl. 21. Nýtt lag frá Hljómsveitt kemur út í dag en það ber heitið Næs í rassinn. Þá ætlar Katrín að frumflytja eigið lag undir listamannsnafninu KataStrófa á tónleikunum í kvöld en drengirnir í Grísalappalísu verða henni innan handar.

Katrín og systir hennar, Anna Tara, í peysunum skemmtilegu.Mynd/Antonía Lárusdóttir





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.