Lífið

Elskar að sauma draumakjóla

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Edda Bára hefur í mörg ár sérsaumað kjóla og brúðarkjóla og starfaði meðal annars fyrir brúðarkjólabúðina Brides by Solo í Cambridge.
Edda Bára hefur í mörg ár sérsaumað kjóla og brúðarkjóla og starfaði meðal annars fyrir brúðarkjólabúðina Brides by Solo í Cambridge. myndir/daníel
Kjólameistarinn Edda Bára Róbertsdóttir bróderar perlur og blúndur í handsaumaða brúðarkjóla. Hún mætir draumum kvenna við saumavélina.



Eddu Báru er brennandi áhugi á handavinnu og saumaskap í blóð borinn.

„Þannig var ég öll menntaskólaárin á saumanámskeiðum á laugardagsmorgnum og sat heima við saumavélina þegar aðrir voru að djamma,“ segir Edda og hlær sínum dillandi hlátri.

Þegar aldarfjórðungur hafði mælst af ævi Eddu ákvað hún að leggja saumaskapinn fyrir sig og mennta sig í fatasaum, sníðagerð, bróderíi og kennsluréttindum við textílskóla í Kaupmannahöfn.

„Ég vissi að ég myndi njóta lífsins við saumavélina því ég hef gaman af því að gera einhvern glaðan með saumaskap. Þá finnst mér dásamlegt að kenna saumaskap og koma til móts við eldmóð og einlægan áhuga nemenda minna,“ segir Edda Bára kát.

Saumavélin hefur fylgt Eddu Báru um víðan heim því hún var um árabil flugfreyja hjá Atlanta og tók saumavélina með sér í allar ferðir.

„Í ferðum mínum um heiminn hef ég lagt mig fram um að bæta við mig kunnáttu í saumaskap og lærði þannig sníðagerð herrafata og búninga hjá virtum búningahönnuði við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn ásamt því að verða óvænt fullnuma í gardínusaum þegar ég var verslunarstjóri Vogue og síðar gardínumeistari efnaða fólksins á Englandi.“

Edda Bára er útlærð í bróderí og nostrar við hvert smáatriði í gullfallegum brúðarkjólum sem hún hannar sjálf og saumar.
Engar tvær í alveg eins draumakjól

Meðfram flugi og annríki í Vogue saumaði Edda Bára spari- og brúðarkjóla í hjáverkum.

„Ég hef yndi af því að skapa fallega hluti og sérstaklega að hanna og sauma draumakjól kvenna,“ segir Edda Bára sem fyrst hittir konurnar til að kynnast þeim aðeins og sjá hvað þeim þykir fallegt, eins og úrklippur, efni og snið. 

„Síðan tek ég málin, teikna upp draumakjólinn og sauma eins konar prufukjól úr lakalérefti svo ég þurfi ekki strax að klippa í silkið eða annað fínt kjólaefni. Með því sjá konurnar hvernig kjóllinn klæðir þær og í sameiningu komust við að niðurstöðu sem gerir draumakjólinn fullkominn.“

Edda Bára sérpantar dýrðleg gæðaefni ásamt blúndum og borðum fyrir hvern og einn kjól og önnur sérverkefni.

„Sérsaumaður kjóll fellur vel að vexti hverrar konu og klæðir hana undurvel. Ég legg mikið upp úr því að fínir kjólar fyrir stærri tilefni henti áfram fyrir aðra sparilega daga og glansinn við sérsaumaðan kjól er óneitanlega sá að engin kona sem mætir þér er í eins kjól.“

Að sögn Eddu Báru ætti að vera jafn eðlilegt að fara til kjólameistara til kjólakaupa eins og það er að kaupa sér tilbúinn kjól út úr búð.

„Á Íslandi starfa margir mjög hæfileikaríkir hönnuðir og saumakonur og beinlínis æðislegt að geta nýtt sér krafta þeirra í fallegan saumaskap og einstök klæði.“

Kvenlegur og þokkafullur blúndukjóll frá kjólameistaranum Eddu Báru.
Konunglega djúsí gardínur



Edda Bára flutti til Íslands um síðustu áramót eftir að hafa búið í Cambridge á Englandi síðastliðin þrjú ár með skoskum unnusta sínum.

„Í Cambridge tók ég við saumastofu fyrirtækisins Clement Jocelyne sem sérhæfir sig í innanhússhönnun, líkt og Epal hér heima. Þar sá ég um sérsaum á gardínum upp á breskan máta sem voru framleiddar fyrir heimili, stofnanir og hótel,“ segir Edda Bára um stássleg gluggatjöld Breta sem eiga lítið skylt við íslenska gardínutísku.

„Bresk híbýli eru verr einangruð en þau íslensku og því gömul hefð að setja vatterað millifóður í gardínurnar sem gerir þær djúsí, konunglegar og flottar. Í stíl eru svo rúmteppi og púðar og allt auðvitað handsaumað sem þykir það allra fínasta á Englandi,“ segir Edda Bára brosmild á vinnustofu sinni, Edda Bára Couture, í Fornubúðum við smábátahöfnina í Hafnarfirði, þar sem iðar allt af listalífi í gömlum bátaskýlum við sæinn.

„Hér er yndislegt að skapa og starfa og með haustinu verð ég með spennandi saumanámskeið í skemmtilegu plássi á loftinu ofan við vinnustofuna. Ég hlakka mikið til enda fátt eins meira kósí og að setjast við saumavélina þegar haustar að úti.“

Sjá nánar á www.eddabara.com og á Facebook.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.