Lífið

Þetta er nýja ísdrottning Íslands

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Paradís opnar á Njálsgötu á fimmtudag.
Paradís opnar á Njálsgötu á fimmtudag. Mynd/úr einkasafni
„Þetta var mjög krefjandi nám og miklu meira á bak við það en ég ímyndaði mér,“ segir Alexandra Rut Sólbjartsdóttir. Hún hefur nýlokið við ísgerðarnám í Bologna á Ítalíu og opnar ísbúðina Paradís á Njálsgötu á fimmtudaginn. Á Ítalíu lærði hún að gera ekta ítalskan ís frá grunni, svokallaðan gelato.

„Ég er útskrifuð úr fyrsta og öðrum bekk í ísgerðarnámi. Ég tók hvorn bekk fyrir sig á einni viku þar sem hver skóladagur var níu klukkutímar – sjö tímar á skólabekk og tveir í eldhúsinu,“ segir Alexandra.

Hún og maður hennar, Sveinn Gunnarsson, hafa rekið söluturninn Drekann í þrjú ár sem er við hliðina á Paradís.

„Við vorum að leigja húsnæðið út þegar ég fékk hugmynd um að opna ísbúð fyrir stuttu. Ég fékk þessa flugu í hausinn og gat ekki sleppt henni og ákvað að fara beint út í þennan rekstur,“ segir Alexandra. Hún býður upp á alls sextán tegundir í búðinni, tólf mjólkurísa og fjórar sorbet-tegundir. Í vetur hyggur hún síðan á að bjóða upp á vöfflur og ískökur, sem og heimagerð brauðform. Aðspurð hver sé hennar uppáhaldsístegund stendur ekki á svörunum.

„Ég er rosalega mikið fyrir súkkulaðiís. Hann er hægt að gera á marga mismunandi vegu og ég er alveg húkkt á honum,“ segir Alexandra og bætir við að hún geti innbyrt afskaplega mikið magn af ís án þess að fitna.

„Ég er ein af þeim heppnu sem brenna alveg hrikalega hratt. Þegar ég var á Ítalíu hötuðu mig allir því ég át og át og át. Á Ítalíu kemst maður ekki hjá því að borða endalaust af góðum mat þannig að ég er mjög heppin að geta það,“ segir Alexandra skellihlæjandi.

En hvernig er framtíðin hjá ísbúðinni Paradís?

„Það eru margir rosalega spenntir fyrir opnuninni þannig að það er eins gott að ég standi mig vel. Ég vona að ísinn minn falli í kramið en ég verð klárlega með besta ísinn á Íslandi sem er gerður alveg frá grunni. Mig langar að sjá hvernig þetta gengur og hver veit nema ég stækki við mig og opni aðra Paradís-búð í framtíðinni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.