Lífið

Jónsmessuganga á Seltjarnarnesinu

Seltjarnarnes fagnar fjörutíu ára afmæli í ár.
Seltjarnarnes fagnar fjörutíu ára afmæli í ár. vísir/stefán
Hin árvissa Jónsmessuganga á Seltjarnarnesi verður farin í kvöld og er hún með sannkölluðum hátíðarbrag. Förinni er heitið milli stofnana á Seltjarnarnesi sem fagna stórafmæli á árinu rétt eins og bæjarfélagið sjálft en það fagnar 40 ára kaupstaðarafmæli.

Dagskráin hefst klukkan 20.00 í Valhúsaskóla, sem einnig er fjörutíu ára, þar sem Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri veitir viðtöku fyrsta eintaki af veglegu afmælistímariti Seltjarnarneskaupstaðar sem verið hefur í vinnslu um nokkurt skeið. Ritinu verður dreift á hvert heimili á Nesinu strax daginn eftir.

Í Valhúsaskóla syngur Selkórinn valin lög eftir Gunnar Þórðarson og síðan verður haldið út í sumarnóttina og gengið sem leið liggur að kirkjunni sem fagnar fjörutíu ára safnaðarafmæli og 25 ára vígsluafmæli á árinu. Í göngunni þangað verða 30 ára sögu sundlaugarinnar gerð skil.

Golfklúbburinn hélt upp á hálfrar aldar afmæli á árinu og verður gengið frá kirkjunni í átt að golfvellinum. Í fjörunni nærri golfvellinum verður tendraður varðeldur, Bjarki Harðarson mætir með harmonikku, efnt verður til fjöldasöngs, eldlistamaður leikur listir sínar og boðið verður upp á veitingar fyrir unga sem aldna.

Stefán Bergmann líffræðingur, sem er flestum mönnum fróðari um Seltjarnarnesið, leiðir gönguna og veitir mönnum án efa gott yfirlit yfir sögu Seltjarnarness fyrr og nú.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.