Anna Karen hefur haft áhuga á tísku og förðun frá blautu barnsbeini og er með stúdentspróf af listabraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti þar sem hún lærði fatahönnun. Auk þess er hún förðunarfræðingur. Rauði þráðurinn í hennar stíl er pönkaralegur en hún hefur gaman af alls kyns tilraunastarfsemi. „Ég fæ aðallega innblástur frá öðru fólki og umhverfinu. Ég get ekki sagt að ég eigi einhverja tískufyrirmynd en mér finnst Kate Moss töff og hönnuðurinn Alexander Wang flottur. Mér finnst flottast þegar fólk hefur persónulegan stíl og finnst það hvernig hver og einn klæðir sig vera ákveðið tjáningarform. Ég er ósammála því að fötin skapi manninn, það er frekar þannig að maðurinn geti nýtt fötin til að tjá sig.“

Fyrir sumarið langar mig að fá mér flotta sandala, léttan sumarkjól og litríka slæðu. Það væri líka gaman að eiga bikini til skiptanna þar sem ég fer mikið í sund. Svo er ég líka hrifin af höttum og það væri gaman að bæta við hattasafnið. Auk þess er ég algjört jakkafrík og á erfitt með að standast fallega yfirhöfn. Ég á yfir fjörutíu jakka og tók einu sinni „jakkaáskorun“ þar sem ég var í nýjum jakka á hverjum degi. Þegar ég var búin að vera í þessu í fimm vikur þá hætti ég af því ég nennti ekki meir,“ segir Anna Karen og hlær.