Lífið

Svona verður brúðkaup ársins

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Vísir/Getty
Raunveruleikastjarnan Kim Kardashian og rapparinn Kanye West ganga í það heilaga um helgina en þau trúlofuðu sig í október á síðasta ári.

Mikil leynd hvílir yfir brúðkaupinu en Fréttablaðið reynir að púsla saman því sem sagt hefur verið um herlegheitin og ímynda sér hvernig brúðkaupsdagur parsins verður.

Au revoir París

Upphaflega ætluðu Kanye og Kim að láta gefa sig saman í Versölum í París í Frakklandi en fengu ekki leyfi frá yfirvöldum. Síðustu fregnir herma að parið muni ganga í það heilaga í 16. aldar virki í Flórens á Ítalíu en þau eru afar hrifin af borginni. Virkið heitir Belvedere og kemur prestur frá Bandaríkjunum til að gefa þau saman.

Mikil leynd

Kim og Kanye sendu út gullslegið boðskort til brúðkaupsgestanna en litlar upplýsingar er að finna á því. Gestir eru boðaðir til veislu í París en samkvæmt heimildarmanni Us Weekly veit enginn gestanna hvar brúðkaupið verður haldið fyrr en þeir koma til París næsta föstudag. Á boðskortinu er hins vegar tekið fram að spariklæðnaður sé skilyrði.

Á föstudagskvöldið ætlar parið að halda partí í Versölum og bjóða gestum sínum upp á leiðsögn um höllina. Þá ætla þau að fylla sundlaug af bleiku vatni til að ganga í augun á gestum sínum, samkvæmt heimildum Daily Mail.

Tvö hundruð gestir

Talið er að Kim og Kanye hafi boðið um tvö hundruð manns í brúðkaupið, þar á meðal systrum Kim, Khloe og Kourtney, Beyoncé, Jay Z, Larsa og Scottie Pippen, Brittny Gastineau, Serenu Williams og Blac Chyna. Sonur Bruce Jenner, Brody Jenner, ætlar hins vegar ekki að mæta þar sem hann er afar móðgaður yfir því að kærustu hans til sjö mánaða, Kaitlynn Carter, var ekki boðið. Þá er Idol-kynninum Ryan Seacrest og ærslabelgnum Lindsay Lohan ekki heldur boðið.

Hrifin af Veru Wang

„Ég mátaði nokkra og þrengdi síðan hópinn,“ sagði Kim Kardashian í viðtali á Met-ballinu fyrir stuttu um brúðarkjólinn. Fatahönnuðurinn Vera Wang hannaði þrjá kjóla sem Kim klæddist þegar hún giftist Kris Humphries árið 2011 og því gæti farið svo að Vera hefði verið fengin til að hanna kjólinn sem Kim játast Kanye í. Vera hefur ekki staðfest þetta en sagði í viðtali í teiti í MOMA-safninu þann 13. maí að hún héldi að kjóllinn yrði eftirminnilegur.

Stjúppabbi leiðir Kim upp að altarinu

Þó að stjúpfaðir Kim, Bruce Jenner, sé nýskilinn við móður hennar, Kris Jenner, eftir tuttugu ára hjónaband ætlar Bruce að leiða stjúpdóttur sína upp að altarinu á laugardag.

Syngur í brúðkaupinu

Söngkonan Lana Del Rey syngur í brúðkaupi parsins samkvæmt heimildum Daily Mirror. Ku Kim vera mikill aðdáandi söngkonunnar og því bað Kanye hana sérstaklega um að flytja ljúf ástarljóð við athöfnina.

Vilja annað barn strax

Kim og Kanye ætla að reyna að eignast barn strax eftir athöfnina ef marka má heimildarmann tímaritsins Us Weekly en þau eignuðust dótturina North í júní á síðasta ári. „Hún vill að stutt sé á milli barnanna í aldri,“ segir heimildarmaður ritsins.

Rándýr andlitshreinsun

Kim fór í andlitshreinsun hjá Lancer Dermatology á föstudag. Hreinsunin var framkvæmd af Louise Deschamps, vinkonu Kim, og er notast við stofnfrumur þegar húðin er hreinsuð. Meðferðin er alls ekki ódýr og kostar frá fimm hundruð dollurum, tæplega sextíu þúsund krónum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.