Lífið

Draumaskápurinn tilbúinn

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Ari Jónsson stendur hér stoltur við skápinn fagra.
Ari Jónsson stendur hér stoltur við skápinn fagra. vísir/stefán
„Ég vildi nú bara fríska upp á stofuna heima og vildi smíða eitthvað sem ég kæmi fyrir heima,“ segir hinn þrítugi Ari Jónsson, nemi í húsgagnasmíði við Tækniskólann, en hann kláraði nýverið við smíði á einstökum skáp.

Um er að ræða skáp sem Ari hannaði frá a til ö. „Ég teiknaði hann alveg frá grunni og hef unnið í honum alla önnina. Ég er mjög sáttur við útkomuna,“ bætir Ari við.

Skápurinn, sem smíðaður er úr hnotu, inniheldur plötuspilara, tvo hátalara, magnara, hólf fyrir hljómplötur og þá er skápurinn einnig skreyttur með led-lýsingu. „Það er glertoppur sem liggur ofan á plötuspilaranum og á bak við hann er ég með lýsingu. Lýsing stýrist þó ekki af tónlistinni, þetta er enginn diskóskápur,“ segir Ari léttur í lundu.

Eftir jól fór Ari að leggja höfuðið í bleyti hvað hann skyldi smíða sem lokaverkefni og eftir smá hugsun var haldið af stað í skápasmíðina. Skápurinn er 120 sentímetrar á breidd, 39 sentímetra djúpur og 96 sentímetrar á hæð.

Hann hefur ekki í hyggju að selja skápinn.

drauma húsgagn


„Þetta er verðmætur skápur sem ég ætla ekki að láta frá mér. Það fór mikil vinna í hann og efnið í hann kostar mikla peninga. Hann hefur mikið persónulegt gildi fyrir mig.“

Ari er mikill tónlistarunnandi og er því sáttur að geta nýtt hlutinn vel. „Ég hlusta mikið á tónlist og á mikið af plötum og á skápurinn því vel við.“

Í námi sínu hefur hann smíðað margt sem hann á í dag eins og vínskáp og hægindastól. En hvað tekur við eftir námið? „Nú er ég bara að reyna að komast á samning áður en maður fer í sveinsprófið,“ bætir Ari við.

Hann langar að starfa sem húsgagnasmiður í framtíðinni og er þetta líklega ekki síðasti skápurinn sem Ari smíðar um ævina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.