Lífið

Við sem erum „heilbrigð“ fáum ákveðna forgjöf í vöggugjöf

Marín Manda skrifar
Lína Rut Wilberg og Nói Gunnarsson.
Lína Rut Wilberg og Nói Gunnarsson.
Listakonan Lína Rut Wilberg sýnir verk sem hún vann með syni sínum, Nóa Gunnarssyni.

„Allir foreldar þekkja það að elska myndirnar sem börnin okkar teikna. Fljótlega eftir að Nói byrjaði að teikna tók ég eftir að það var eitthvað sérstakt og skemmtilegt við fígúrurnar hans. Mig hefur lengi langað til nota þær í verkin mín og þegar að listahátíðin List án landamæra hafði samband við mig var það góð hvatning til að koma þeirri hugmynd í framkvæmd,“ segir Lína Rut Wilberg listakona þegar talið berst að listaverkasýningunni, Nói og ég, sem hún heldur ásamt níu ára syni sínum.

Sýningin er sett upp í Duushúsi í Reykjanesbæ. Verkin eru blönduð barnslegu og óheftu handbragði Nóa og fínlegum vinnubrögðum Línu Rutar. „Það var einstök ánægja að taka þátt í þessu verkefni með Nóa. List án landamæra er skemmtilegt og verðugt verkefni og frábær liður í að stuðla að hugarfarsbreytingu um fatlaða og líf þeirra. Það er svo oft ríkjandi gleði, jákvæðni og hamingja í kringum Nóa og ég er viss um að ef fleiri hefðu sama viðhorf til lífsins og hann væri heimurinn enn betri,“ segir Lína Rut sem á tvo fatlaða syni.

„Það má segja að við sem erum „heilbrigð“ fáum ákveðna forgjöf í vöggugjöf en það er hægt að lifa góðu og innihaldsríku lífi þrátt fyrir fötlun eða heftingu af einhverju tagi. Við eigum að umvefja fjölbreytileikann og fagna honum,“ segir Lína Rut, sem er hlakkar til að vinna meira með syni sínum í framtíðinni og eyða gæðastundum með honum. Hægt er að fylgjast nánar með verkunum í gegnum Facebook-síðuna, Lína Rut.

Már Gunnarsson, eldri sonur Línu Rutar, frumflutti lag við opnun sýningarinnar og Villi Naglbítur samdi textann.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.