Innlent

Neytendastofa kemst ekki út á land

Sveinn Arnarsson skrifar
Tryggvi Axelsson
Tryggvi Axelsson
Neytendastofa hefur ekki annast eftirlit utan 100 km radíuss frá höfuðborgarsvæðinu síðan 2008 vegna niðurskurðar þrátt fyrir skyldur um að tryggja öryggi og réttindi neytenda.

Eftirlit Neytendastofu snýr að verðmerkingum í verslunum og löggildingum mælitækja svo sem voga í verslunum og hjá fyrirtækjum sem og bensíndælna.

Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu, segir þetta alvarlegt mál. „Skorið hefur verið niður í fjárframlögum til Neytendastofu á síðustu árum og það hefur bitnað helst á landsbyggðinni. Neytendastofa er ekki höfuðborgarstofa, hún er stjórnvald á landsvísu og verður að starfa sem slík.“

Tryggvi telur að úrbóta sé þörf. „Þetta er alvarleg staða og þarft er að sníða stofnuninni þann stakk að hún geti sinnt landinu öllu en ekki aðeins höfuðborgarbúum og nærsveitum hennar“

„Ég er algjörlega sammála því að eftirlitið er á landsvísu og á að vera á landsvísu. Stofnunin verður að fá tryggt fé til að sinna skyldum sínum. Það sýnir sig á höfuðborgarsvæðinu að í hvert sinn sem við förum í eftirlitsferðir kemur eitthvað út úr ferðum okkar neytendum til hagsbóta og að þörf er á virku eftirliti af okkar hálfu. Því má segja að staða neytenda utan höfuðborgarsvæðisins sé að einhverju leyti örlítið viðkvæmari í ljósi ástandsins,“ segir Tryggvi.

Stofnunin hefur frá hruni 2008 sinnt verðmerkingum á höfuðborgarsvæðinu og hefur í stöku tilvikum sinnt eftirliti norðan Hvalfjarðarganga, á Akranesi og í Borgarnesi, og austan Hellisheiðar, í Hveragerði og á Selfossi. Á öðrum stöðum landsins hefur stofnunin tekið við ábendingum frá neytendum og reynt að framfylgja skyldum sínum með því að senda bréf á viðkomandi staði með beiðni um úrbætur og lagfæringar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×